Bogfimifélagið Hrói höttur komið í hóp hafnfirskra íþróttafélaga

Fréttir

Nýjasta íþróttafélagið í flóru hafnfirskra félaga er Bogfimifélagið Hrói höttur. Er hér um að ræða fyrsta bogfimifélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er með aðstöðu í íþróttahúsi en mikil gróska virðist vera í bogfimi hérlendis.

Nýjasta íþróttafélagið í flóru hafnfirskra félaga er Bogfimifélagið Hrói höttur. Félagið var stofnað 3. september síðastliðinn og hófst fyrsta námskeiðið í íþróttahúsi Hraunvallaskóla í desember.  Er hér um að ræða fyrsta bogfimifélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er með aðstöðu í íþróttahúsi en mikil gróska virðist vera í bogfimi hérlendis.

Hafnarfjarðarbær og Bogfimifélagið Hrói Höttur undirrituðu í dag samstarfssamning. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar úthlutar félaginu tímum og eru iðkendur á öllum aldri. 18 ára og yngri geta nýtt frístundastyrk Hafnarfjarðarbæjar sem og þátttakendur 67 ára og eldri. Þátttakendur, sem mest geta verið 8 á hverju námskeiði, fá allan æfingabúnað lánaðan hjá félaginu.  Hvert námskeið er 10 vikur og á námskeiðinu nú í janúar eru þátttakendur frá 14 ára til rúmlega fertugs. Næsta námskeið hefst 18. febrúar. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu félagsins (Bogfimifélagið Hrói höttur).

Við fögnum stofnun bogfimifélagsins og óskum þeim alls hins besta! 

Ábendingagátt