Bóka- og bíóhátíð barnanna

Fréttir

Ný menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði sem haldin verður vikuna 15. – 21. febrúar.  Sérstök áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. 

Bóka- og bíóhátíð barnanna, menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði, verður haldin vikuna 15. – 21. febrúar.  Þessa vikuna verður sérstök áhersla lögð á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og mun hátíðin styðja við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri.

Börn, bækur og bíó í sviðsljósinu

Menningarhátíðin er haldin í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, grunnskóla, leikskóla, Bæjarbíó og fleiri aðila. Yfirlýst markmið hátíðar er að hvetja börn á öllum aldri til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og – viðburðum á meðan á hátíðinni stendur.  Þetta er í fyrsta skipti sem blásið er til slíkrar hátíðar í Hafnarfirði og standa vonir til þess að úr verði árleg hátíð þar sem börn, bækur og bíó eru í sviðsljósinu.

Frír aðgangur er á alla viðburði hátíðarinnar!
 

Fléttun við skólastarf, frístundastarf og fjölskyldulíf

Í leikskólum bæjarins verður þessa daga mikil áhersla á bækur, sögur, sögulestur og hlustun. Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar verða haldnar í grunnskólum bæjarins þar sem foreldrum 7. bekkinga er boðið að hlusta á upplestur og framsögn nemenda í 7. bekkjum. Í Hafnarborg stendur yfir sýning á verkum Ragnhildar Jóhannsdóttur. Í verkum sínum leggur Ragnhildur áherslu á tungumálið þar sem hún leitast við að skapa sjónræn ljóð í formi skúlptúra, klippimynda og teikninga. Skólahópar á leik- og grunnskólastigi geta pantað heimsókn sérstaklega og fengið leiðsögn um sýninguna. Byggðasafn Hafnarfjarðar býður skólahópum að koma virka daga á sérstaka sýningu um sögu kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði og aðrar fastar sýningar á safninu. Pantað hjá Byggðasafninu. Í Bókasafni Hafnarfjarðar verður fjölbreytt dagskrá í gangi alla dagana:

  • Ljóð unga fólksins. Landskeppni 4.-10. bekkinga í ljóðaskrifum. Nemendur skila ljóðum á bóka-/skólabókasafnið eða rafrænt á vef bókasafnsins. Nánari upplýsingar á bóka-/skólabókasafni í þínum skóla!
  • SMS örsögukeppni. Þema keppninnar er „lestur“. 35 orða örsaga send í #6960035 í síðasta lagi 21. febrúar. Góð verðlaun í boði fyrir 1.-3. sæti.
  • Útlánaleikur. Foreldrar barna á leik- og grunnskólaaldri fá afslátt af nýju bókasafnsskírteini. Árgjald á  1.000 kr. í stað 1.900 kr. Foreldrar eru fyrirmynd barna sinna í lestri. Nöfn allra sem taka barnabók/-bækur að láni þessa daga fara í pott. Dregið verður úr nöfnunum og einhverjir heppnir lestrarhestar fá bókaverðlaun.
  • Semjum sögu saman. Saga skrifuð með þátttöku þinn á umbúðapappír á barnadeild bókasafnsins.
  • Ekki dæma bókina eftir bíómyndinni. Bókaútstilling á bókum og bíómyndum gerðum eftir þeim.

Eins og endranær er safnið opið fyrir skólahópa  leik- og grunnskóla að koma í sögustund eða safnkynningu. Pantað hjá bókasafninu.

Dagskrá alla dagana er eftirfarandi:

MÁNUDAGUR 15. FEBRÚAR 

  • Bæjarbíó: Bíósýning  kl. 9.30 og 10.30 fyrir 4-5 ára börn í leikskólum Hafnarfjarðar
  • Bókasafn Hafnarfjarðar: Opið kl. 10-19 fyrir öll verkefni sem kynnt eru hér framar

 

ÞRIÐJUDAGUR 16. FEBRÚAR

  • Bæjarbíó: Bíósýning  kl. 9.30 og 10.30 (OPNUNARHÁTÍÐ) fyrir 4-5 ára börn í leikskólum Hafnarfjarðar
  • Bókasafn Hafnarfjarðar: Ratleikur frá kl. 14-19 (bækur og bíó) en safnið opið frá kl. 10-19 fyrir öll verkefni sem kynnt eru hér framar
     

MIÐVIKUDAGUR 17. FEBRÚAR

  • Bæjarbíó: Bíósýning  kl. 9.30 og 10.30 (OPNUNARHÁTÍÐ) fyrir 4-5 ára börn í leikskólum Hafnarfjarðar.
  • Bókasafn Hafnarfjarðar: Bókabingó kl. 17 en er opið frá kl. 10-19 fyrir öll verkefni sem kynnt eru hér framar

FIMMTUDAGUR 18. FEBRÚAR

  • Bæjarbíó: Bíósýning  kl. 9.30 og 10.30 fyrir 4-5 ára börn í leikskólum Hafnarfjarðar.
  • Bókasafn Hafnarfjarðar: Heimanámsaðstoðin Heilahristingur kl. 15-17 en safnið er opið frá kl. 10-19 fyrir öll verkefni sem eru kynnt hér framar

FÖSTUDAGUR 19. FEBRÚAR

  •  Bókasafn Hafnarfjarðar: Opið kl. 11-17 fyrir öll verkefni sem eru kynnt hér framar.
  • Grunnskólarnir: Dagskrá í hverjum grunnskóla bæjarins fyrir nemendur í öllum árgöngum. Áherslan verður á bókakynningar, upplestur úr bókum og kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir bókum og henta börnum á ólíkum aldri. Dagskrána verður að finna á heimasíðum skólanna

LAUGARDAGUR 20. FEBRÚAR

  • Fjörður: Bóka- og býttimarkaður barna kl. 13-15. Opinn markaður þar sem börn á grunnskólaaldri geta komið með „gömlu“ bækurnar sínar og selt á 200 kr. eða býtt á bókum (á jöfnu) svo komið sé heim með „nýjar“ í staðinn. Mæting á söluborð er kl. 12.45 en þeim verður dreift um alla 1. hæð Fjarðar.
  • Bæjarbíó: Bíósýningar í boði fyrir alla fjölskylduna 
         
           Kl. 13 Lína langsokkur
           Kl. 15 Benjamín dúfa
           Kl. 20 Englar alheimsins. Einar Már Guðmundsson höfundur skáldsögunnar að baki kvikmyndinni           verður með inngang að sýningunni.
  • Bókasafn Hafnarfjarðar: Opið kl. 11-15 fyrir öll verkefni sem eru kynnt hér framar.
  • Byggðasafn Hafnarfjarðar: Opið kl. 11-17 á sýningu um sögu kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði.

SUNNUDAGUR 21. FEBRÚAR 

  • Hafnarborg: Smiðja kl. 14 um endurnýtingu bóka. Unnið verður með texta, samklipp og origami. Í byrjun smiðjunnar verður boðin leiðsögn um sýningu Ragnhildar Jóhannsdóttur í Sverrissal Hafnarborgar, efniviður Ragnhildar eru fundnar, notaðar bækur sem í meðförum hennar umbreytast og öðlast þar með aðra tilvist. Starfsfólk Hafnarborgar leiðir smiðjuna.
  •  Bæjarbíó: Bíósýningar í boði fyrir alla fjölskylduna 

          Kl. 13 Múmínálfarnir
          Kl. 15 Hrafnar, Sóleyjar og Myrra. Höfundar sögunnar að baki kvikmyndinni, Eyrún Jónsdóttir og           Helgi Sverrisson, verða með inngang að sýningunni.
          Kl. 20 Djöflaeyjan. Einar Kárason höfundur skáldsögunnar að baki kvikmyndinni verður með                      inngang að sýningunni.

  • Byggðasafn Hafnarfjarðar: Opið kl. 11-17 á sýningu um sögu kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði. 

 

Ábendingagátt