Bóka- og bíóhátíð barnanna 2020 var sett í dag

Fréttir

Bækur og kvikmyndir munu leika óvenju stórt hlutverk innan leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar næstu vikuna. Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði var sett  í fimmta sinn nú í morgun með opnunarathöfn sem send var út í beinni útsendingu til nemenda og starfsfólks. 

Lestur er lífsins leikur! Bækur og bíó færa okkur fróðleik, þekkingu og ævintýri!

Bækur og kvikmyndir munu leika óvenju stórt hlutverk innan leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar næstu vikuna. Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði var sett  í fimmta sinn nú í morgun með opnunarathöfn sem send var út í beinni útsendingu til nemenda og starfsfólks. Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar, flutti stutt ávarp til krakkanna og setti hátíðina. Bergrún Íris Sævarsdóttir, rit- og myndhöfundur og bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2020, las uppúr nýútkominni bók sinni Töfralandið og Ragnheiður Gröndal flutti samhliða nokkur lög úr Næturdýrunum.

Bj3Börnin fylgdust með opnun hátíðar á sínum heimavelli – í sínum skóla 

Menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði með áherslu á bækur og kvikmyndir

Bóka- og bíóhátíð barnanna, menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði, er haldin vikuna 9. – 16. október. Þessa vikuna verður sérstök áhersla lögð á bækur og kvikmyndir innan leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður hátíðin við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri. Samhliða stóð til að bjóða upp á fjölda viðburða fyrir börn og fjölskyldur þeirra á menningarstofnunum sveitarfélagsins. Þessum viðburðum hefur verið frestað í ljósi alls. Þeir verða settir á dagskrá um leið og umhverfi og aðstæður leyfa. 

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar heimsækir skólabörn bæjarins við fyrsta tækifæri 

Í nóvember mun barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir leggja upp í skólaheimsóknir og tendra lestrar- og ritlistaráhuga nemanda í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hún mun segja frá starfi sínu og fræða börnin um það hvernig bækur verða til, frá fyrstu hugmynd að innbundinni bók sem seinna getur orðið að leikriti eða kvikmynd. Sjálf hefur Bergrún skrifað tólf barnabækur og myndlýst yfir 50 bækur auk auglýsinga, spila, plakata og tölvuleikja. Bergrún, sem er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2020, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína Langelstur að eilífu og Kennarinn sem hvarf fékk bæði Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og Fjöruverðlaunin. Þjóðargersemin Guðrún Helgadóttir hefur einmitt alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá Bergrúnu Írisi en báðar eru þær Hafnfirðingar sem sækja innblástur til heimabæjar síns. Þá mun Bergrún fræða börnin um hið fjölbreytta starf teiknarans og vonandi skilja krakkana eftir fulla af innblæstri og hugmyndum fyrir sín eigin sköpunarverk.

Opnir viðburðir sem til stóð að halda verða auglýstir þegar nýjar dagsetningar hafa verið ákveðnar. Meira um það síðar! 🙂 

Ábendingagátt