Bóka- og bíóhátíðin 2024 sett í Bæjarbíói

Fréttir

Bóka- og bíóhátíð barnanna 2024 hefst í dag en hún er menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri setti hátíðina í ár nú í morgunsárið. Börn í 4. bekk grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar nutu þess að horfa á atriði úr Fíusól og velta fyrir sér hvernig bók verður að leikriti.

 Menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði 

„Velkomin á bóka- og bíóhátíðina sem haldin er í áttunda sinn,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri á sviði í Bæjarbíói. Þar sátu nemendur 4. bekkja grunnskóla Hafnarfjarðar spenntir og biðu eftir atriðum úr leikritinu Fíusól gefst aldrei upp sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

Kristín Helga Gunnarsdóttir höfundur bókanna um Fíusól og Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikstjóri sögðu svo með aðstoð tveggja ungra leikara sýningarinnar frá því hvernig bók verður að leiksýningu.

Hátíð sem eflir lestraráhuga

Tilgangur bóka- og bíóhátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður þannig við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins, Lestur er lífsins leikur.

Bækurnar um Fíusól eru einmitt átta og ný að koma út. Kristín Helga sagði frá því hvernig sögupersónurnar, Fíasól og Ingólfur Gaukur, ættu sér fyrirmyndir í dóttur og vini hennar. Krakkarnir hlustuðu af athygli og höfðu gaman að söng leikaranna en frumsamin tónlist prýðir leikritið eftir Braga Valdimar Skúlason.

Viðburðirnir um Fíusól voru tveir nú í morgun. Annar kl. 9, hinn kl. 10. Með þeim opnaði Bóka- og bíóhátíðin þetta árið. Hver grunnskóli Hafnarfjarðarbæjar verður með sínar áherslur næstu þrjá daga til að minna á mikilvægi lestrar svo hann gleymist  ekki í vetrarfríinu.

Já, Hafnarfjarðarbær er menningarbær barnanna.

Ábendingagátt