Bókasafn Hafnarfjarðar nútímavæðist og flytur í Fjörð

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur gengið frá kaupum á nýju húsnæði fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar í verslunarmiðstöðinni Firði. Nútímavæða á 102 ára gamla bókasafn bæjarins og laga að breyttum kröfum og þörfum í samfélaginu.

Mestu framkvæmdir í miðbænum í áratugi

Hafnarfjarðarbær hefur gengið frá kaupum á nýju húsnæði fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar í verslunarmiðstöðinni Firði. Nútímavæða á 102 ára gamla bókasafn bæjarins og laga að breyttum kröfum og þörfum í samfélaginu. Bókasafnið verður í anda nútímabókasafna; margmiðlunarsetur sem býður upp á fjölbreytta notkun, sköpun og samveru.

Húsnæðið er tæpir 1.700 fermetrar að stærð. Þar af eru um 550 fermetrar í nýbyggingu Fjarðar við Strandgötu 26-30 sem rís hratt þessa dagana. Breytingarnar og uppbyggingin við Fjörð eru mestu framkvæmdir sem átt hafa sér stað í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi.

Aðdráttarafl fyrir íbúa

„Við horfum til þess að bókasafnið okkar eflist verulega og verði mikið aðdráttarafl fyrir bæjarbúa á öllum aldri. Það verði samkomustaður fyrir okkur til að hittast, auðga og næra andann,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

„Bókasöfn hafa víða um Evrópu verið að þróast í takt við nútímann með meiri áherslu á næðisrými, upplifun og samveru fjölskyldunnar. Einnig sjáum við fyrir okkur að aukin áhersla verði á fjölbreytta menningartengda viðburði.  Við bíðum spennt eftir því að njóta bókasafnsins á nýjum stað í hjarta Hafnarfjarðar.“

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti samhljóða á fundi sínum 19. júní síðastliðinn kauptilboð bæjarins í húsnæðið og verður það undirritað við 220 Fjörð ehf. á nýjum stað safnsins, í Firðinum kl. 16:30 miðvikudaginn 28. ágúst.

Breyttur og bættur Fjörður

Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri 220 Fjarðar, segir að nýja bókasafnið, sem verður nokkurs konar þekkingarsetur, muni án efa hafa mikla þýðingu fyrir nýjan og breyttan Fjörð.

„Við sjáum fyrir okkur að það muni hafa mikið aðdráttarafl. Nú er bókasafnið að fá um 125 þúsund gesti á ári. Við teljum ekki ósennilegt að gestafjöldinn þrefaldist. Þetta verður samfélagshús enda Fjörðurinn hinn miðbærinn á höfuðborgarsvæðinu.“

Byggingarverktakar eru GG verk og arkitektar ASK arkitektar. Eftirlit og byggingarstjórn verkefnisins er í höndum Strendings ehf. Kaupverð er um 1,1 milljarður króna.

Fjörðurinn breytist hratt þessa dagana. 220 Fjörður byggir þar 9.000 fermetra og því 21 þúsund fermetrar í heild sinni. Ásamt nýja húsnæði bókasafnsins rísa þar 18 hótelíbúðir, 31 lúxusíbúð, verslunarrými og 1200 fermetra bílastæðakjallari.

 

  • Bókasafn Hafnarfjarðar var sett á fót fyrir liðlega 100 árum. Það er afar vinsælt á meðal bæjarbúa, en um 125 þúsund gestir heimsækja það árlega. Núverandi húsnæði bókasafnsins er við Strandgötu 1, á fjórum hæðum og sjö pöllum. Bókasafnið verður á einni hæð í nýju húsnæði sem veitir mikla og fjölbreytta möguleika.
  • Stefnt er að því að húsnæðið verði afhent bókasafninu snemma árs 2026. Fjörður verslunarmiðstöð er í hjarta Hafnarfjarðar, í nálægð við iðandi mannlíf, menningu sögu og verslun. Unnið er að stækkun verslunarmiðstöðvarinnar um 8.700 fermetra með bílakjallara.Hönnun nýbyggingarinnar er fáguð og tímalaus þar sem vandað er til efnisvals, innréttinga og frágangs. Lögð er áhersla á glæsilegt útlit sem fellur vel að fallegu og hlýlegu umhverfi í miðbæ Hafnarfjarðar. Þar verða 18 hótelíbúðir sem snúa að Strandgötunni og 31 íbúð með glæsilegt útsýni út á Fjörðinn eða yfir gamla bæinn.
  • Á jarðhæð verða verslanir og þjónusta og á annarri hæðinni verður veitingastaður og nýtt Bókasafn Hafnarfjarðar.
  • Í húsnæðinu verður einnig matvöruverslun með gott vöruúrval, mathöll/kaffitorg þar sem hægt verður að gæða sér á fjölbreyttum mat frá morgni til kvölds svo og verslanir af ýmsum stærðum og gerðum. Metnaður er lagður í að velja inn fjölbreyttar og vandaðar verslanir og þjónustu.
  • Nánari upplýsingar um nýjan miðbæ Hafnarfjarðar: 220midbaer.is

 

 

Ábendingagátt