Bókasafnið hefur þjónað mörgum kynslóðum

Fréttir

Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafns Hafnarfjarðar, hefur í nógu að snúast þessa dagana enda mikill gestagangur í safninu sem mun halda upp á eitt hundrað ára afmæli á næsta ári.

Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar, hefur í nógu að snúast þessa dagana enda mikill gestagangur í safninu sem mun halda upp á eitt hundrað ára afmæli á næsta ári. Sigrún segir að bókasafnið eigi afmæli næsta haust en nokkrum stórum og sérstökum viðburðum verður dreift yfir árið af því tilefni.

SigrunGudnadotir

Hlýja, ró, fræðsla og gróska einkenna bókasafnið

Hlýja, ró, fræðsla og gróska, einkenna um þessar mundir þennan helsta samkomustað margra kynslóða Hafnfirðinga og boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá á aðventunni. Jóladagskrá bókasafnsins hófst um mánaðamótin. Margvíslegir viðburðir hafa þegar farið fram en á miðvikudagskvöldið komu rithöfundar og lásu upp úr bókum sínum. Á meðal þeirra voru Hallgrímur Helgason og Kamilla Einarsdóttir, sem bæði voru tilnefnd sama dag til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur og bókmenntafræðingur, hefur haldið utan um dagskrána en hún var jafnframt tilnefnd. „Það var fullt hjá okkur í sal og margir í streymi líka. Þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Sigrún.

Nóg um að vera á aðventunni á bókasafninu

Pólski jólasveinninn Święty Mikołaj hefur þegar komið í heimsókn á leið sinni frá Norðurpólnum til Póllands og haldin hefur verið smiðja með hefðbundnu pólsku jólaskrauti þar sem allir voru hjartanlega velkomnir. Mjög margir Pólverjar sækja safnið og þar er fjölbreytt úrval af pólskum bókum, jafnt nýjum sem eldri, að sögn Sigrúnar. Jafnframt er starfandi pólskumælandi starfsmaður á safninu. Hinn íslenski Kertasníkir kíkti á bókasafnið um nýliðna helgi og heilsaði upp á börnin. Sönghópurinn Á léttu nótunum kemur 7. desember kl. 16.30 og syngur jólalög fyrir gesti. 14. desember verður sýndarveruleiki fyrir alla í safninu og þann 16. desember verður jólamyndin Die Hard sýnd.

5O5A3913

Ró og næði á bókasafninu alla daga þótt ýmsir stórkostlegir viðburðir séu þar á aðventunni.

Í bókasafni Hafnarfjarðar er elsta barnadeild landsins og stærsta tónlistardeild bókasafna. Boðið er upp á nútímalega þjónustu enda segir Sigrún að safnið hafi breyst með auknum tækniframförum. Í bókasafninu er rafbókasafn, fundarými, netkaffi og hlaðvarpsstúdíó. „Við höfum þróast í nýjar áttir á undanförnum árum, aukið viðburði og fjölþjóðlegt samstarf,“ segir hún.

„Undanfarið hafa pantanir streymt inn fyrir nýju jólabækurnar og það hafa myndast biðlistar á þær vinsælustu, eins og Arnald. Síðan eru skvísubækur, til dæmis eftir Jenny Colgan og þess háttar bækur alltaf mjög vinsælar. Þá er Guðrún frá Lundi líka eftirsótt. Þótt aðsóknin sé góð hjá okkur allt árið eykst hún alltaf fyrir jólin. Það er mikið um að vera hér í Hafnarfirði fyrir jólin sem laðar fólk í bæinn og við finnum fyrir því,“ segir Sigrún og hlakkar mikið til næsta árs þegar margt verður um að vera.

Kynning birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2021

Ábendingagátt