Bókin LÆK er komin út: Útgáfupartý á Thorsplani

Fréttir

Hátt í 3000 ungmenni mættu í tveimur hollum í útgáfupartý bókarinnar LÆK í Hafnarfirði á Thorsplani í morgun, fyrst miðstig og svo unglingastig grunnskólanna í Hafnarfirði. Þau fögnuðu bókinni sem þau tóku þátt í að skrifa.

Troðfullt á Thorsplani í útgáfupartýi LÆK!

Hátt í 3000 ungmenni mættu í tveimur hollum í útgáfupartý bókarinnar LÆK í Hafnarfirði á Thorsplani í morgun, fyrst miðstig og svo unglingastig grunnskólanna í Hafnarfirði. Þau fögnuðu bókinni sem þau tóku þátt í að skrifa og dönsuðu með strákunum í VÆB. Útgáfupartýið er eitt það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi. Ungmennin fá bókina afhenta skólunum sínum í dag og verður unnið með hana í öllum skólum Hafnarfjarðar í maí.

„Þau eru snarklikkuð. Þessar hugmyndir sem maður fékk voru alveg rosalegar. Þetta er ekki neitt sem manni myndi detta í hug sjálfum,“ segir Gunnar Helgason rithöfundur sem samdi, eins og Bergrún Íris Sævarsdóttir, smásögur fyrir bókina LÆK með nemendunum. Hann vann eftir hugmyndum nemenda á unglingastigi og hún með nemendum á miðstigi, níu sögur hvort. „Já,“ segir Bergrún. „Þau eru svo takmarkalaus og hugsa út fyrir kassann.“ Bergrún hefur skrifað og myndlýst tugi bóka. „Það var áskorun taka við fjölbreyttum hugmyndum en búa samt til sögu með sál og hjarta og halda eigin rödd.“ Þau Bergrún og Gunni stýrðu útgáfuhófinu nú í morgun.

18 sögur úr 2600 hugmyndum

Bókin samanstendur af 18 smásögum byggðar á tillögum frá hátt í 2.600 nemendum. Dregið var úr þeim í beinu streymi og segir Gunni Helga að unnið hafi verið í mjög náinni samvinnu við ungmennin. „Það er geggjað sem rithöfundur að komast í þetta samtal, því þau eru ekki bara samstarfshópur heldur líka lesendahópurinn og því frábært að heyra hvað þau vilja.“ Og hvað var það? „Þræðirnir voru gegnumsneytt tveir; fantasía og ást.“

Bergrún segir að á margan hátt auðveldara að tengja við frjóan huga krakkanna með ADHD. „Mörg réttu úr sér og hugsuðu að þau mættu taka pláss þegar ég hitti þau í skólunum sagði þeim það og vann persónusköpunina með þeim.“ Ein smásagan samanstandi til að mynda af þúsund öpum í flugvél, kínverskum sirkus og bifvélaverkstæði. „Ég lærði mikið af þessu. Ekkert er ómögulegt.“

Hvatning til að lesa og skilja

LÆK er samstarfsverkefni milli Mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar og rithöfundanna tveggja. Bókinni er ætlað að efla lesskilning, orðaforða, læsi og lestraráhuga nemenda á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar, á öllum getustigum. Smásögurnar tengjast hverjum skóla og voru tvær sögur samdar í hverjum þeirra. Við útgáfu á LÆK var áherslan sett á vandaða uppsetningu texta, góða leturgerð og leturstærð sem hentar nemendum í lestrarvanda. Bókin kemur samtímis út sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafninu. Auk smásagnanna er stutt umfjöllun í bókinni ætluð foreldrum og kennurum um hvernig dýpka má lesskilning nemenda.

Bókin LÆK er þó ekki aðeins fyrir Hafnfirðinga heldur mun einnig fást í öllum verslunum. En verður bókin örugglega lesin? „Já, ég efast ekki um það, því núna fer keppni í gang,“ segir Gunni. „Veitt verða verðlaun fyrir bestu söguna á unglinga- og miðstigi og öll verða að kjósa uppáhalds söguna sína. Bannað að kjósa sinn skóla. Þannig að það kemur í ljós í lok maí hvaða skóli fær verðlaunin. Skólaheiðurinn er að veði.“

Innilega til hamingju með bókina öll. Hún er frábær eins og þið!

Ábendingagátt