Börn, bækur og bíó

Fréttir

Bóka- og bíóhátíð barnanna 2017 hófst í dag með glæsilegri opnunarhátíð. Rúmlega 200 tíu ára börn frá grunnskólum Hafnarfjarðar mættu á svæðið til að hitta hlýða á söng og upplestur og upplifa bíósýningu í menningarhúsi Hafnarfjarðar, sjálfu Bæjarbíói. Uppbrot á skólastarfi á báðum skólastigum og fjölbreytt dagskrá verður í boði í söfnum Hafnarfjarðar alla vikuna.

Bóka- og bíóhátíð barnanna 2017 hófst í dag í Hafnarfirði með glæsilegri opnunarhátíð. Rúmlega 200 tíu ára börn frá grunnskólum Hafnarfjarðar mættu á svæðið til að hitta hlýða á söng og upplestur og upplifa bíósýningu í menningarhúsi Hafnarfjarðar, sjálfu Bæjarbíói. Uppbrot á skólastarfi á báðum skólastigum og fjölbreytt dagskrá verður í boði í söfnum Hafnarfjarðar alla vikuna.

Bóka- og bíóhátíð barnanna er menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir. Tilgangur hátíðar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður hátíðin við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hafa verið síðustu misseri. Menningarhátíðin er haldin í nánu samstarfi safna og skóla bæjarins við Bæjarbíó og fleiri aðila. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin hér í Hafnarfirði.  Hátíðin hófst með mikilli skemmtun í Bæjarbíói í morgun þar sem rúmlega 200 börn komu saman til að hlýða á kór Öldutúnsskóla, upplestur sigurvegara Stóru upplestrarkeppninnar 2017 og nokkur lög hjá Friðriki Dór sem útnefndur var Lestrarsendiherra Hafnarfjarðar 2016 ásamt Fanndísi Friðriksdóttur, knattspyrnukonu. Titilinn bera þau út þetta ár og eru andlit lesturs og læsis fyrir hafnfirsk börn og þeim fyrirmynd og hvatning til framfara og aukins árangurs á lestrarsviðinu. Rósa Guðbjartsdóttir, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, sá um að opna hátíðina og bjóða börn og boðsgesti velkomin. Opnunarhátíðinni
lauk með bíósýningu fyrir börnin í Bæjarbíói.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði alla vikuna á söfnum Hafnarfjarðarbæjar auk þess sem hefðbundið skólastarf í grunn- og leikskólum er brotið upp með bókum og bíósýningum. Alla vikuna fá foreldrar afslátt af stofnun bókasafnsskírteina auk þess sem hægt er að taka þátt í bókabingói, útlánaleik og því að semja sameiginlegt ljóð í Bókasafni Hafnarfjarðar. Eva Rún Þorgeirsdóttir, rithöfundur, aðstoðar rithöfunda framtíðarinnar við að virkja ímyndunaraflið og skrifa sögur í bókasafni. Smiðjan er hugsuð fyrir börn á aldrinum 9-12 ára. Alla vikuna stendur skólahópum til boða að heimsækja bæði Hafnarborg og Byggðasafn og fá leiðsögn um þær sýningar sem þar standa nú yfir.  Í Hafnarborg eru það sýningarnar Rósa og Kvenhetjan og í Pakkhúsi Byggðasafnsins sýningin Bíóbærinn – gullöld kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði. Þessar sýningar verða líka opnar fyrir almenning um komandi helgi.  Sóla sögukona mun taka á móti leikskólabörnum með upplestri þrjá morgna í vikunni. Annar bekkur grunnskóla Hafnarfjarðar er boðið í brúðuleikhús í Bæjarbíó á sýninguna Pétur og úlfurinn og er fjölskyldunni allri boðið í listasmiðjuna Furðuverur spjalla saman í Hafnarborg í vikulok þar sem hægt verður að skapa eitthvað fallegt saman í formi ljóða og/eða texta sem setja má saman í bókverk.

Ábendingagátt