Börn og furðufiskar á Flensborgarhöfn

Fréttir

Dorgveiðikeppni sumarnámskeiða Hafnarfjarðarbæjar við Flensborgarhöfn hefur með árunum orðið að keppni sem enginn á aldrinum 6-12 ára vill missa af. Hátt í 400 börn og ungmenni tóku þátt í dorgveiðikeppninni í ár og er óhætt að segja að spennustigið hafi verið hátt, eftirvæntingin mikil og tilburðir bæði líflegir og skemmtilegir. 

Hátt í 400 börn og ungmenni tóku þátt í ár 

Dorgveiðikeppni sumarnámskeiða Hafnarfjarðarbæjar við Flensborgarhöfn hefur með árunum orðið að keppni sem enginn á aldrinum 6-12 ára vill missa af. Hátt í 400 börn og ungmenni tóku þátt í dorgveiðikeppninni í ár og er óhætt að segja að spennustigið hafi verið hátt, eftirvæntingin mikil og tilburðir bæði líflegir og skemmtilegir. Verðlaun voru veitt fyrir flestu fiskana, stærsta fiskinn og furðufiskinn 2022. Meðal þeirra fögru fiska sem veiddir voru í ár voru koli, ufsi, þorskur og marhnútur. Meiri afli skilaði sér á land í ár en síðustu ár en núna í fyrsta skipti var smokkfiskur í boði sem beita og virtist það skila árangri. 

IMG_5024

Ein fjölmennasta dorgveiðikeppni landsins

Hafnarfjarðarbær hefur staðið fyrir dorgveiðikeppni á Flensborgarhöfn frá 1990 og er svo komið að keppnin er orðin ein fjölmennasta dorgveiðikeppni landsins og mörg hundruð börn og ungmenni bíða spennt eftir því ár hvert að munda færin og spreyta sig við að veiðarnar í fallegu umhverfi Flensborgarhafnar. Þátttakendur eru bæði á vegum sumarnámskeiða bæjarins og svo fer vaxandi sá hópur sem mætir til leiks með foreldrum sínum og forráðamönnum enda dorgveiði vinsæl í Hafnarfirði. 

IMG_5010

Starfsfólk bæjarins voru með öfluga gæslu á höfninni meðan á keppninni stóð auk þess sem Siglingaklúbburinn Þytur sá um gæslu frá sjó.

Þessi veiddu flesta fiska, stærsta fiskinn og furðufiskinn 2022

Hefð hefur skapast fyrir því að verðlauna unga veiðimenn fyrir afla og árangur í þremur flokkum Í ár voru verðlaunin bikar og veiðistöng til að ýta undir áframhaldandi veiðar og áhuga. 

IMG_5095

Þessi veiddu flesta fiska, stærsta fiskinn og furðufiskinn 2022.

Hinn 11 ára gamli Ómar Hugi Hjálmarsson, hlaut verðlaun fyrir stærsta fiskinn, kola sem vigtaði 359 gr. Emil Snær Ágústsson hlaut verðlaun fyrir furðufisk ársins sem reyndist vera litfagur marhnútur og Þorri Strand Barkarson fyrir að veiða flesta fiska í keppninni í ár. Hann dró á land fjóra fiska og skammt á eftir honum var Karitas Ósk Jónasardóttir með þrjá fiska. 

Ábendingagátt