Börnin fá gæðamáltíðir í skólum bæjarins

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Hafnfirsk börn og starfsfólk í leik- og grunnskólum í Hafnarfirði fá gæðamáltíðir í skólunum. Hafnarfjarðarbær hefur samið við fyrirtækið Í-mat til næstu ára.

Hollt í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarkaupstaður hefur gengið frá þjónustusamningi við Í-mat ehf. um framleiðslu og framreiðslu á mat fyrir tíu leikskóla og alla grunnskóla bæjarins, ásamt frístundaheimilum.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri, segir að með samningnum séu gæði og öryggi í máltíðaframboði fyrir börn og starfsfólk bæjarins tryggð. „Matarmenning skólanna er stór hluti af velferð og heilsu barna og við höfum lagt ríka áherslu á næringargildi, fjölbreytni og sjálfbærni.“

Samningurinn tekur gildi 1. ágúst 2025 og gildir til 31. júlí 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um tvö ár. Heildarlengd samnings getur því náð allt að sjö árum. Í-mat ehf. mun sjá um heildarlausn í matreiðslu og dreifingu máltíða í samræmi við ströngustu gæðakröfur en fyrirtækið hefur áralanga reynslu í veitingaþjónustu.

Valdimar Víðisson með Pétri Viðarssyni og Elínu Elíasdóttir frá Í-mat.

Reglulegt eftirlit

Samningurinn kveður á um reglulegt eftirlit með næringargildi og framkvæmd, ábyrgð á meðhöndlun úrgangs og skýr viðbragðsferli ef upp koma frávik. Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilusviðs Hafnarfjarðar, segir áherslu lagða á ferskt hráefni, fjölbreytta valkosti og hátt næringargildi í samræmi við ráðleggingar landlæknis og næringarsáttmála leikskóla bæjarins.

„Með því að tryggja öflugt samstarf við traustan þjónustuaðila á sviði skólamáltíða tekur Hafnarfjörður mikilvægt skref í átt að heilbrigðu næringarumhverfi hafnfirskra barna.“

Hollur matur

Ferskur salatbar með fjölbreyttu grænmeti og ávöxtum verður í hverjum grunnskóla. Samið var um að næringarinnihald fyrir hvern matarskammt sé alltaf tilgreint fyrir hvern dag. Huga skal að því að maturinn sér litríkur, rétt samsettur, lítið unninn, án óþarfa E-efna og sem ferskastur þegar hann kemur á disk barnanna.

  • Leikskólabörnin fá hafragraut í morgunmat og fá möguleika á súrmjólk eða morgunkorni tvisvar í viku. Boðið verður upp á niðurskorna ávexti með ásamt þorskalýsi eða krakkalýsi. Þau fá kanil en ekki kanilsykur. Þau fá einnig sína nónhressingu
  • Grunnskólabörnum verður boði upp á ávaxta- og grænmetisáskrift í morgunfrímínútum þar sem foreldrar og forráðamenn geta keypt ávexti í áskrift.

En hvað fá börnin í hádegisverð? Hádegismaturinn samanstendur af:

  • Aðalrétti
  • Hliðarréti
  • Salatbar (í grunnskólum)

Sérstök áhersla er lögð á að matarskammtar í hádegismat séu næringarríkir og uppfylli ráðleggingar embættis landlæknis um ráðlagðan dagskammt.

  • Matvara skal vera lítið unnin, og aukaefnum skal haldið í lágmarki.
  • Grænmeti og/eða ávextir skulu fylgja matnum daglega.
  • Trefjaríkar vörur, s.s. meðlæti og brauð.
  • Fiskur skal vera í boði a.m.k. tvisvar í viku, þar á meðal feitur fiskur (t.d. lax eða silungur, en ekki reyktur fiskur). Fjölbreyttar eldunaraðferðir. Ekki skal festa soðinn fisk einu sinni í viku
  • Rautt kjöt skal vera í hófi.
  • Holl fita (ómettuð) skal höfð í fyrirrúmi.

Til samræmis við opinberar ráðleggingar skulu máltíðir taka mið af eftirfarandi þáttum:

  • Saltmagn skal vera í hófi, og viðbættur sykur í algeru lágmarki.
  • Fersk matvæli skulu höfð í fyrirrúmi eins og kostur er.
  • Matur skal vera litríkur og í samræmi við þann aldurshóp sem um ræðir

Já, nú erum við spennt. Góður matur = betri líðan!

Ábendingagátt