Börnin skapa og skemmta sér á Bóka- og bíóhátíð

Fréttir

Hafnfirskir skólar eru að fara öðruvísi og skapandi leiðir við framkvæmd verkefna í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna í ár en hátíðin stóð yfir síðustu vikuna í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Hátíðin í ár einkennist ekki síst af skapandi hugsun og öðruvísi skemmtiheitum.

Hafnfirskir skólar eru að fara öðruvísi og skapandi leiðir við framkvæmd verkefna í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna í ár en hátíðin stóð yfir síðustu vikuna í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Hátíðin í ár einkennist ekki síst af skapandi hugsun og öðruvísi skemmtiheitum sem kallað hefur m.a. á aukið samstarf milli bekkja og frístundaheimila fjölda skóla. Einhverjir skólar hafa verið að vinna með lestrarvefi (bókaorma eða kóngulóarvefi) í samstarfi við heimili nemenda og þannig stækkuðu vefirnir í takti við aukinn fjölda lesinna bóka á hafnfirskum heimilum. Óhætt er að segja að bóka- og bíótengd verkefnavinna, ævintýri, lestur, vinna með stafi og orð og skemmtilegar kvikmyndir hafi einkennt hafnfirskt skólastarf síðustu vikuna. 

Hver og einn bekkur og hver og einn skóli útfærði þátttöku sína 

Þannig vann t.d. 5. bekkur í Engidalsskóla með Harry Potter þema þessa vikuna og gerðu þannig bókamerki og flokkunarhatta, skrifuðu galdraþulur og uppskriftir af seiðum ásamt því að velja sér heimavist og búa til sína eigin persónu sem  býr í Hogwart. 3. bekkur í Skarðshlíðarskóla lás bókina Ótrúleg saga um risastóra peru í nestistímunum frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudegi var skellt í bíó með alvöru bíóstemningu; stólum raðað upp í bíóbekki, popp og djús og línuna og teiknimynd á tjaldi.  

BB4

Samstarf frístundaheimila skilar sér í kvikmynd samsettri úr mörgum stuttmyndum

Hópur frístundaheimila Hafnarfjarðarbæjar, í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar, ákvað að taka virkan þátt í hátíðinni í ár með því að búa til kvikmynd úr mörgum stuttmyndum. Bókin Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur rithöfund og bæjarlistamann Hafnarfjarðar 2020 varð fyrir valinu. Til stóð að hún færi í heimsókn í alla grunnskóla Hafnarfjarðar þessa vikuna en í ljósi alls þá hefur heimsóknum verið frestað þar til í nóvember. Í þessum heimsóknum ætlaði hún að lesa valinn kafla úr þessari spennandi bók fyrir 3-4 bekki grunnskólanna. Þessi aldurshópur hefur nú síðustu vikuna fengið tækifæri til að taka þátt í kvikmyndagerðinni. Þau frístundaheimili sem tóku þátt voru Tröllaheimar, Hraunkot, Álfakot, Skarðssel, Selið og Lækjarsel en þátttaka í verkefninu var að sjálfsögðu valfrjáls og einhver frístundaheimili þegar búin að útfæra þátttöku sína í ár með öðrum hætti. Þessi frístundaheimili fengu ákveðinn kafla úr bókinni til að vinna með sem var lesinn saman af hópnum áður en sköpunargleðin tók öll völd.

Bb6

Börnin sáu um ferlið frá upphafi til enda…með smá aðstoð starfsfólks

Börn frístundaheimilanna unnu saman að kvikmyndagerðinni frá upphafi til enda og fengu þau að útfæra handritið, hanna og finna búninga, sjá um leikmuni, leika og þannig sjá um alla þá þætti sem huga þarf að við gerð kvikmyndar. Sumir unnu á bak við tjöldin, enda sú vinna ekki síður mikilvæg, og sáu þannig um t.d. hönnun búninga og leikmuna s.s. löggubíls og lögguhatta. Verkefnið vakti mikla lukku og gleði og heyrst hefur að hóparnir vilji nú vera með stuttmyndagerð í hverri viku. Kvikmyndin er nú tilbúin til sýningar og eru frístundaheimilin að undirbúa frumsýningu hennar hjá sér. Aldrei að vita nema Bergrún Íris sjálf sendi þeim hvatningu og einkunn fyrir frammistöðuna. Til stendur að sýna kvikmyndina á Bókasafni Hafnarfjarðar þegar umhverfi og aðstæður leyfa slíkar samkomur á nýjan leik.

Ábendingagátt