Börnin upplifa hvernig bók verður að leikriti

Fréttir

Hundruð leikskólabarna mættu til opnunarhátíðar Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2022 í Gaflaraleikhúsinu í morgun þar sem elstu börn leikskólanna fengu að upplifa það hvernig bók verður að leikriti.

Opnunarhátíð Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2022 í Gaflaraleikhúsinu

Hundruð leikskólabarna mættu til opnunarhátíðar Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2022 í Gaflaraleikhúsinu í morgun þar sem elstu börn leikskólanna fengu að upplifa það hvernig bók verður að leikriti. Höfundar leikverksins Langelstur að eilífu, þær Bergrún Íris Sævarsdóttir barnabókahöfundur og Björk Jakobsdóttir leikari og leikstjóri, sögðu börnunum frá umbreytingarferli bókar yfir í leikrit og leikarar sýningarinnar Langelstur að eilífu sýndu brot úr sýningunni. Bóka- og bíóhátíðin stendur yfir til og með 21. október.

Einlægt verk um vináttu, líf og dauða

Söngleikurinn Langelstur að eilífu er byggður á vinsælum verðlaunabókum Bergrúnar Írisar um Eyju og Rögnvald sem verða bestu vinir þrátt fyrir 90 ára aldursmun. Verkið fjallar á einlægan hátt um vináttuna, lífið og dauðann og er sýningin full af gleði, söng, hlýju og hjartnæmum boðskap. Hinn ástsæli Siggi Sigurjóns fer með hlutverk Rögnvalds gamla og með hlutverk hinnar sex ára gömlu Eyju fara tvær ungar stórleikkonur, þær Iðunn Eldey Stefánsdóttir og Nína Sólrún Tamimi. Þá syngja, leika og dansa einnig tíu börn í sýningunni auk leikaranna Ásgríms Geirs Logasonar og Júlíönu Söru Gunnarsdóttur. Þessi vinsæli söngleikur er kominn aftur til sýninga í Gaflaraleikhúsinu eftir frí í sumar og eru átta sýningar í boði á tímabilinu 30. október – 20. nóvember.

Menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði

Bóka- og bíóhátíð barnanna er menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður þannig við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins, Lestur er lífsins leikur. Hátíðin hófst síðastliðinn föstudag með bíómaraþoni í ungmennahúsinu Hamrinum, með aldarafmæli Bókasafns Hafnarfjarðar og sýningaropnun í Hafnarborg á laugardag og skapandi ljóða- og vatnslitasmiðju í Hafnarborg á sunnudag.

Bóka- og bíótengd verkefnavinna mun einkenna hafnfirskt skólastarf þessa vikuna

Menningarhátíðin er haldin í október í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, Hafnarborg, grunnskóla, leikskóla, frístundaheimili og fleiri aðila. Yfirlýst markmið hátíðarinnar er að hvetja börn á öllum aldri til virkrar þátttöku. Bóka- og bíótengd verkefnavinna, ævintýri, lestur, vinna með stafi og orð og skemmtilegar kvikmyndir muni einkenna hafnfirskt skólastarf þessa vikuna, bæði innan leikskóla og grunnskóla bæjarins. Byggðasafn Hafnarfjarðar býður skólahópum að koma virka daga á sérstaka sýningu um sögu kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði og á aðrar fastar sýningar á safninu.

Ábendingagátt