Breyting á mötuneyti skóla

Fréttir

ISS mun næstu fjögur árin framleiða og framreiða mat fyrir nemendur og starfsfólk leik- og grunnskóla ásamt samantekt að máltíð lokinni.  Rík áhersla er lögð á næringu, umhverfissjónarmið og matarsóun. Hægt er að velja um fasta áskrift fimm daga vikunnar, dagaval eða kaupa stakar máltíðir.

Hafnarfjarðarbær hefur gert samning við ISS um framleiðslu á mat fyrir leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar 2016-2020. ISS mun sjá um mat fyrir nemendur og starfsfólk ásamt samantekt að máltíð lokinni.  Þrjú fyrirtæki tóku þátt í útboði bæjarins á þjónustunni; Skólamatur, ISS og SS. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 30. júní s.l. að gengið yrði til samninga við ISS þar sem fyrirtækið reyndist vera með hagstæðasta tilboðið. Við framleiðslu og framreiðslu verður rík áhersla lögð á næringu, umhverfissjónarmið og matarsóun. Hægt er að velja um fasta áskrift fimm daga vikunnar, dagaval eða að kaupa stakar máltíðir.

Samningur nær til tíu skóla

ISS hefur með undirritun á samningi tekið að sér framleiðslu og framreiðslu á mat fyrir Hraunvallaskóla, Hvaleyrarskóla, Lækjarskóla, Setbergsskóla, Öldutúnsskóla, Engidalsskóla, Víðistaðaskóla, leikskólann í Hraunvallaskóla, leikskólann Álfaberg og leikskólann Bjarkalund. Samningstíminn er fjögur ár með ákvæðum um að hægt verði að framlengja hann tvisvar sinnum um eitt ár ef báðir aðilar óska þess. Þannig getur hámarkssamningstími orðið 6 ár frá undirritun samnings.

Framkvæmd og fyrirkomulag

Í grunnskólunum Hafnarfjarðarbæjar verður sem fyrr í boði heitur matur í hádeginu fyrir nemendur og starfsmenn. Í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar er í boði morgunmatur, hádegismatur og nónhressing. ISS sér um áskrift og innheimtu matarskammta og heldur skrá yfir söluna.  Hægt verður að kaupa fasta áskrift að mat en einnig er í boði að velja sér þá vikudaga sem óskað er eftir máltíð og greiða aðeins fyrir þá daga.  Aukinheldur er hægt að kaupa stakar máltíðir. Samningur við ISS kveður skýrt á um að máltíðir skuli vera samsettar samkvæmt nýjustu ráðleggingum um mat og næringu og að áhersla sé lögð á gæði og fjölbreytni. Matseðill beggja skólastiga á að vera þannig samsettur að samspil hollustu (næringargildi, innihaldi og skammtastærðir) bragðs, útlits og öryggis sé alltaf gætt og miðað við að hádegisverðurinn innihaldi um 30% af heildarorku dagsins.

Á Skólaask er að finna upplýsingar um matseðil vikunnar hjá hverjum leik- og grunnskóla fyrir sig auk upplýsinga um næringarinnihald. Er þetta gert til að upplýsa foreldra og aðstandendur barna og unglinga um hvernig unnið er að því að framfylgja ráðleggingum Embættis landlæknis um næringargildi máltíða. Við uppbyggingu á matseðli er eftirfarandi haft til hliðsjónar:

  • fiskur tvisvar í viku (lax eða silungur 1 sinni á sex vikna fresti)
  • grænmetisréttur að lágmarki 1 sinni í viku á sex vikna fresti
  • spónamatur einu sinni í viku (súpur, grautar, skyr og jógúrt)
  • kjötréttur einu sinni í viku (unnar kjötvörur eru fjórum sinnum á ári)
  • heimabökuð brauð
  • til drykkjar er í boði vatn og/eða léttmjólk með flestum máltíðum

 

Allar breytingar hvort heldur er varða dagaval, greiðslumáta eða uppsögn á áskrift skal gera fyrir 21. hvers mánaðar undan þeim mánuði sem breytingum er ætlað að taka gildi.

Áskriftartímabili á skólamat


Haust 2016

  • 22. ágúst til 30. september, sem er til greiðslu 24. ágúst
  • 1. október til 31. október, sem er til greiðslu 21. september
  • 1.nóvember til 30.nóvember, sem er til greiðslu 21. október
  • 1.desember til 31.desember, sem er til greiðslu 21. nóvember

Vor 2017

  • 1.janúar til 31. janúar, sem er til greiðslu 21.desember 2016
  • 1.febrúar til 28. febrúar, sem er til greiðslu 21. janúar
  • 1.mars til 31. mars, sem er til greiðslu 21. febrúar
  • 1.apríl til 30. apríl, sem er til greiðslu 21. mars
  • 1.maí til 31.maí, sem er til greiðslu 21. apríl
  • 1. júní til 30. júní, sem er til greiðslu 21. maí
Ábendingagátt