Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð

Fréttir

Í upphafi nýs árs voru breytingar gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Skilyrði er að einstaklingur á fjárhagsaðstoð dvelji á Íslandi og geti þannig þegar þess er óskað, jafnvel með stuttum fyrirvara, sannað á sér deili með því að mæta í þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar með skilríki með mynd. Fjárhagsaðstoð er ætluð fólki í tímabundnum erfiðleikum. 

Dvöl á Íslandi skilyrði og tilkynningaskylda með stuttum fyrirvara tekin upp

Í upphafi nýs árs voru breytingar gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Skilyrði er að einstaklingur á fjárhagsaðstoð dvelji á Íslandi og geti þannig þegar þess er óskað, jafnvel með stuttum fyrirvara, sannað á sér deili með því að mæta í þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar með skilríki með mynd. Fjárhagsaðstoð er ætluð fólki í tímabundnum erfiðleikum og hugsuð sem stuðningur við einstaklinga eða fjölskyldur til að mæta grunnþörfum þeirra. Umsókn um fjárhagsaðstoð er lögð fram með rafrænum hætti í gegnum Mínar síður á hafnarfjordur.is. 

Skoða reglur um fjárhagsaðstoð 

Ætluð fólki í tímabundnum erfiðleikum  

Sveitarfélögum er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar og eins vegna sérstakra aðstæðna. Fjárhagsaðstoð er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði á sviði félagsmála svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar. Fjárhagsaðstoð er veitt í formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf eða virkniúrræði.  

Tilgangur aðstoðar er að:  

  • Styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfbjargar 
  • Gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar  
  • Stuðla að valdeflingu þeirra

Sanna skal á sér deili innan tveggja virkra daga  

Þegar sótt er um fjárhagsaðstoð til framfærslu í fyrsta skipti eða þegar liðnir eru sex mánuðir frá því síðast var sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu er umsækjanda skylt að sanna á sér deili með því að mæta í þjónustuver og sýna gild persónuskilríki með mynd. Bregðist umsækjandi ekki við kröfu um að sanna á sér deili er heimilt að stöðva afgreiðslu umsóknar og/eða greiðslu fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Sanna skal á sér deili innan tveggja virkra daga frá því að umsókn var lögð fram nema lögmæt forföll hamli því. Þeim sem sækir um aðstoð er skylt að leita sér að atvinnu hér á landi og taka þeirri vinnu sem býðst nema því aðeins að gildar aðstæður hamli því. Skilyrði fyrir greiðslu fjárhagsaðstoðar er að einstaklingur dvelji Íslandi og þiggi ekki stuðning eða sæki vinnu í öðru landi.  Vakni rökstuddur grunur um að umsækjandi dvelji ekki á Íslandi er heimilt að gera kröfu um að umsækjandi sanni á sér deili með því að mæta í þjónustuver og sýni gild persónuskilríki með mynd. Bregðist umsækjandi ekki við kröfu um að sanna á sér deili er heimilt að stöðvar afgreiðslu umsóknar og/eða greiðslu fjárhagsaðstoðar til framfærslu.  

Ábendingagátt