Breytingar á sorphirðugjaldi 2024

Fréttir

Þann 1. janúar 2023 tóku gildi strangar reglur um sérstaka söfnun heimilisúrgangs. Samhliða komu til framkvæmda breytingar á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs um að innheimta fyrir meðhöndlun skuli vera sem næst raunkostnaði á hvern aðila. Slík aðgerð við innheimtu byggist á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir (e. Pay as you throw) þ.e. í takti við fjölda íláta.

Innleiðing á Borgað þegar hent er – takk fyrir að flokka!

Þann 1. janúar 2023 tóku gildi strangar reglur um sérstaka söfnun heimilisúrgangs. Samhliða komu til framkvæmda breytingar á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs um að innheimta fyrir meðhöndlun skuli vera sem næst raunkostnaði á hvern aðila. Slík aðgerð við innheimtu byggist á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir (e. Pay as you throw) þ.e. í takti við fjölda íláta. Þessar breytingar á lögum eru meðal annars að skila sér í sorphirðu- og sorpeyðingargjald Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2024. Þannig hefur samsetning sorpíláta hjá íbúum bein áhrif á sorphirðugjaldið og gjaldið breytist úr því að vera föst tala í að vera breytileg eftir fjölda og stærð íláta auk þess sem íbúar í fjölbýli deila heildarkostnaði hlutfallslega í takti við stærð íbúðar.

Samsett gjald sem byggir á fjórum kostnaðarliðum

Stóra breytingin í sorphirðu- og sorpeyðingargjöldum sveitarfélaganna er að gjaldið breytist úr því að vera eitt fast gjald í það að vera breytilegt gjald per heimili sem byggir á fjórum kostnaðarliðum:

  • Rekstur grenndarstöðvar – fast gjald per heimili
  • Matarleifar/Blandaður úrgangur – breytilegt gjald eftir stærð og fjölda
  • Plastumbúðir – breytilegt gjald eftir stærð og fjölda
  • Pappír og pappír – breytilegt gjald eftir stærð og fjölda

Samsetning sorpíláta hefur bein áhrif á sorphirðugjaldið

Húsfélög fjölbýlishúsa mun frá og með þessari breytingu deila heildarkostnaði eftir stærð íbúða og þannig munu stærstu íbúðirnar bera hlutfallslega hæstan kostnað og þá í takti við fjölda og stærð sorpíláta við fjölbýlið. Gjaldskrá vegna sorphirðu er almennt að hækka um 9,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum umfram áætlanir þessa árs og væntanlegri verðbólgu næsta árs. Breytt samsetning sorpíláta hjá íbúum getur dregið umtalsvert úr þessari hækkun og í einhverjum tilfellum jafnvel lækkað gjaldið. Haustið 2023 var opnað fyrir kaup íbúa á öllum gerðum sorpíláta og eru íbúar hvattir til að endurskoða samsetningu sinna sorpíláta ef þeir hafa ekki gert það nú þegar. Í tilfellum fjölbýlishúsa (2 íbúðir eða fleiri) er það formaður húsfélags sem óskar eftir breytingu á samsetningu sorpíláta eftir að samþykki íbúa liggur fyrir og að vel ígrunduðu mál og greiningu á rýmdarþörf úrgangs með tilliti til losunartíðni.

Markmiðið er sjálfbær auðlindanotkun

Þessum breytingum er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Þar spila sveitarfélögin veigamikið hlutverk m.a. að teknu tilliti til úrgangsstjórnunar og innleiðingar. Hafnarfjarðarbær hefur síðustu mánuði og ár unnið að endurskoðun stjórntækja og aðgerða á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs. Þessi breyting er liður í þeirri vegferð.

Sorphirðu- og sorpeyðingargjald er innheimt með fasteignagjöldum ár hvert. Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir 2024 voru nýverið birtir á Mínum síðum á vef bæjarins og á Island.is.

Nánari upplýsingar um fjórflokkunina almennt

Gjaldskrá 

Kaup, endurnýjun og förgun á sorpílátum 

Ábendingagátt