Breytingar á stjórnskipulagi bæjarins samþykktar

Fréttir

Á aukafundi í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar í morgun voru samþykktar eftirfarandi breytingar á á stjórnskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Á aukafundi í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar í morgun voru samþykktar eftirfarandi breytingar á á stjórnskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Breyting á stjórnskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir eftirfarandi breytingar á stjórnskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Hjá bænum verða fjögur þjónustusvið og tvö stoðsvið.  Þjónustusviðin snúa einkum að þjónustu við bæjarbúa en verkefni stoðsviðanna miða að því að styðja við framkvæmd verkefna á þjónustusviðunum.

Stjórnskipulag bæjarins mun eftir breytingarnar skiptast í fjölskylduþjónustu, fræðslu- og frístundaþjónustu, umhverfis- og skipulagsþjónustu og hafnarþjónustu.  Stoðsviðin tvö verða stjórnsýslusvið og fjármálasvið.

Í nýju skipuriti er lögð áhersla á að ná fram betri nýtingu á starfskröftum og á sama tíma staðsetja verkefni betur við hlið annarra þar sem ljóst er að samlegð er fyrir hendi.

Helstu breytingar við núverandi stjórnskipulag eru að:

·  verkefni íþrótta- og æskulýðsmála, frístundaheimila og félagsmiðstöðva eru flutt frá fjölskylduþjónustu til fræðslu- og frístundaþjónustu,

· verkefni skipulags og bygginga eru færð undir svið umhverfis og framkvæmda sem eftir breytingarnar verður umhverfis- og skipulagsþjónusta,

·  hafnarþjónusta verði færð undir verksvið bæjarstjóra.

Auk þessa skal innra skipulag hvers sviðs endurskipulagt til samræmis við breytt stjórnskipulag bæjarins.

Gildistaka skipulagsins verði í tveimur áföngum þannig að nú þegar flytjist starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva frá fjölskylduþjónustu til fræðslu- og frístundaþjónustu, en mikilvægt er að sá tilflutningur dragist ekki þannig að skólastjórn­endur geti tekið mið af því í undirbúningi sínum fyrir næsta skólaár.  Í seinni áfanga verði önnur starfsemi flutt í samræmi við hið nýja skipulag og skal þeim tilflutningi lokið eigi síðar en 15. september nk.

Ljóst er að skipulagsbreytingum þessum fylgja tilfærslur og breytingar á mannahaldi.  Markmiðið skal vera að breyttar áherslur í rekstri skili aukinni framlegð.  Bæjarstjóra er falið að framkvæma þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að ná fram þeirri virkni sem nýtt stjórnskipulag krefst. 

 

Starf sviðsstjóra skipulags og bygginga verði lagt niður

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að starf sviðsstjóra skipulags og bygginga verði lagt niður.

Í þeim skipulagsbreytingum sem áður hafa verið samþykktar er gert ráð fyrir því að starfsemi skipulags og bygginga verði samtvinnað sviði umhverfis og framkvæmda sem eftir breytingarnar verður umhverfis- og skipulagsþjónusta.  Þar með er starf sviðsstjóra skipulags og bygginga lagt niður.  Yfirmaður hins sameinaða sviðs verður núverandi sviðsstjóri umhverfis og framkvæmda.  Bæjarstjóra falið að framkvæma þær breytingar sem nauðsynlegar eru.

Fyrir fundinum lá einnig fyrir eftirfarandi tillaga sem vísað var til bæjarráðs en tillagan var svohljóðandi:

Samskiptareglur milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela bæjarstjóra að undirbúa gerð samskiptareglna milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins.

Mikilvægt er að skýrar línur séu á milli þess hvað telja megi hlutverk kjörinna fulltrúa annars vegar og starfsmanna hins vegar, þannig að starfsmenn og kjörnir fulltrúar þekki valdsvið hvers annars.  Samskiptareglur af þessu tagi eru til þess fallnar að skerpa skilin, skýra hlutverk, tryggja faglega afgreiðslu og auka öryggi við og flýta fyrir afgreiðslu mála.

Bæjarstjórn samþykkt að vísa tillögunni til bæjarráðs.

Á forsíðu www.hafnarfjordur.is er hægt að horfa á upptöku frá fundinum.

Hér er hægt að nálgast úttekt á rekstri og stjórnskipulagi bæjarins – greiningarhluti.

 

Ábendingagátt