Brúarsmiðir milli menningarheima í Hafnarfirði

Fréttir

Fimm brúarsmiðir starfa í Hafnarfjarðarbæ. Þeir hjálpa foreldrum af erlendum uppruna að fóta sig í íslensku grunn- og leikskólaumhverfi. Þeir hjálpa einnig skólunum að skilja menningarheim barnanna sjálfra.

 

 

 

Brú milli menningarheimanna

Vissir þú að Hafnarfjarðarbær býður erlendum fjölskyldum stuðning til að hver fjölskylda kynnist hratt og vel skólaumhverfi barnsins síns og hvernig það verður fullur þátttakandi í samfélaginu? Tveir brúarsmiðir starfa við leikskóla bæjarins og þrír við grunnskólanna.

Rétt eins og brúarsmiðir aðstoða foreldra með erlendan bakgrunn að skilja skólaumhverfið fræða þeir starfsfólk skólanna svo þeir skilji betur menningu aðfluttu fjölskyldunnar. Starfsmennirnir búa til skilning á báða vegu.

  • LEIKSKÓLI: Brúarsmiðir í leikskólunum hjálpa til við aðlögun erlendra barna. Þeir leggja sérstaka áherslu á fjölskyldur með flóttareynslu. Þeir tala fjölda tungumála með áherslu á spænsku og arabísku.
  • GRUNNSKÓLI: Brúarsmiðir í grunnskólum aðstoða erlenda foreldra að skilja hvernig skólastarfið fer fram og hvernig frístundin virkar. Þeir eru einnig brú við íþrótta- og tómstundastarf og hvetja til þess.
    • Verið velkomin á opið hús á fimmtudögum á Strandötu 41 frá klukkan 14-16.

Stuðningur sem skiptir máli

„Við erum öll hér til að styðja ykkur, foreldra af erlendum uppruna,“ segir Aleksandra Kozimala, kennslufulltrúi fjölmenningar í leikskólum. Hún bendir á að brúarsmiður sem starfi á gólfi leikskólanna tali við börnin og hjálpi foreldrum að skrá börnin í grunnskóla, útskýra skólakerfið.

„En þetta er líka hjálp við að átta sig á íslensku umhverfi; fatnaði, hvenær þarf pollaföt?“ Margt sé ólíkt því sem er í heimalandinu. Eitt sem komi mörgum til að mynda á óvart sé að börn á Íslandi fara út í vondu veðri. Þá þurfi þau réttan búnað. „Já, foreldrar þurfa að vita hvernig íslenskt leikskólalíf virkar.“ Aleksandra tekur einnig dæmi um hvernig brúarsmiðirnir fræði starfsfólkið til að mynda um Ramadan, trúarhátíð múslíma, rétt eins og þeir fræði svo foreldrana um það mikla frelsi sem hér ríki.

„Það er allt svo frjálst hér. Víða um heim eru krakkar aldrei látnir ganga einir í skólann. Þá eru skólasvæðin hér á Íslandi oft ekki afgirt sem margir foreldrarnir eiga ekki að venjast í heimalandi sínu. Þetta þarf að útskýra.“

Margþætt hlutverk

Aleksandra segir hlutverk brúarsmiðanna er margþætt. Þau kenni foreldrum á starf íþróttafélaga og hjálpi til við að tryggja að börnin geti tekið þátt í tómstundum og íþróttum.  Þeir kenni  foreldrunum á Abler og önnur forrit sem nýtt eru í skólastarfi.

„Brúarsmiðir eiga að fækka óþarfa vanda og sýna hversu fallegt er að hafa fjölbreytileika. Auðga samfélagið,“ segir hún. „Við hjálpum foreldrum að leysa málin svo þeir geti það sjálfir í framtíðinni.“

Viltu hafa samband við brúarsmiði?

Senda má pósta á mörgum tungumálum: Arabísku, ensku, pólsku og spænsku.

 

Myndatexti: Brúarsmiðir Hafnarfjarðar Brúarsmiðirnir Bjarki Rafn Andrésson, Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir og Hemn Hussein í grunnskólunum. Elisabeth López Arriaga og Rima Alhakeem í leikskólunum. Mikil þekking er í hópnum.

 

Ábendingagátt