BRÚIN: Barn | Ráðgjöf | Úrræði

Fréttir

Grein eftir Huldu Björk Finnsdóttir, félagsráðgjafa og verkefnastjóra BRÚARINNAR. BRÚIN er nýsköpunar- og þróunarverkefni með skilgreindum mælanlegum markmiðum. Vonir standa til um að aukin þverfagleg nálgun í þjónustu við börn og unglinga og íhlutun á fyrri stigum dragi úr þörf fyrir aðkomu barnaverndar. Einnig að kröfur um ítarlegar greiningar minnki og færri börn í Hafnarfirði þrói með sér fjölþættan vanda.   

Grein eftir Huldu Björk Finnsdóttur, félagsráðgjafa og verkefnastjóra BRÚARINNAR.

Stjórnvöld og fagaðilar innan mennta- og velferðarþjónustu hafa síðustu misseri lagt ríkari áherslu á að bregðast fljótt við þegar börn og unglingar sýna fyrstu merki um náms- tilfinninga- eða geðheilsuvanda. Starfshópur í Hafnarfjarðarbæ hefur síðustu tvö árin unnið að því að þróa verklag til að veita slíka þjónustu í tæka tíð. Í framhaldi af þeirri vinnu var verkefnið BRÚIN- barn- ráðgjöf- úrræði, sett af stað.  Helsta markmið BRÚARINNAR er að auka lífsgæði leik- og grunnskólabarna í Hafnarfirði með snemmtækri þjónustu.  Þegar vandi barns fer að gera vart um sig er fyrst í stað oft hægt að nýta einföld úrræði í nærsamfélagi barnsins, innan skólans, félags-, skólaþjónustu eða innan heilsugæslunnar. Þannig er reynt, með náinni samvinnu ólíkra fagsviða innan og utan sveitarfélagsins, að koma í veg fyrir að börn og unglingar þrói með sér fjölþættan vanda.

Með BRÚNNI er áhersla lögð á aukna þverfaglega þjónustu sem fer fram í gegnum lausnateymi leik- og grunnskólanna.  Í lausnateymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskylduþjónustu, sálfræðingum og/eða  sérkennslufulltrúa frá fræðslu- og frístundaþjónustu. Hlutverk lausnateyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í lausnateymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra. Viðunandi úrræði innan og utan skólans eru virkjuð til að bregðast snemma við erfiðleikum eða aðstæðum barns. Unnið er eftir þessari nálgun fyrst í stað í sjö leikskólum og þremur grunnskólum Hafnarfjarðar. Skólarnir taka þátt í þróun þessa nýja vinnulags sem síðar verður innleitt í alla leik- og grunnskóla bæjarins. Þrír ráðgjafar hafa verið ráðnir til að tryggja verklaginu og samstarfinu brautargengi. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytt verklag í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ. 

Verklag BRÚARINNAR rímar vel við  áhersluþætti heilsueflandi samfélags Hafnarfjarðar og annarra samstarfsverkefna milli ríkis og sveitarfélagsins. Hafnarfjarðarbær og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þróar um þessar mundir vinnulag þar sem bregðast á fyrr við aðstæðum barna og unglinga með áhættuhegðun. Einnig eru samráðsteymi starfandi með fagfólki Hafnarfjarðarbæjar,  heilsugæslustöðva og BUGL með því markmiði að stytta boðleiðir og þjónustu fyrir börn með náms- hegðunar- eða tilfinningavanda. Hafnarfjarðarbær vinnur einnig að því að gera bæinn að barnvænu sveitarfélagi í samvinnu við UNICEF á Íslandi og umboðsmanni barna. Einnig er öflugt samstarf milli foreldrafélaga, foreldraráða og fagfólk bæjarins sem starfa í þágu barna og ungmenna.

BRÚIN er nýsköpunar- og þróunarverkefni með skilgreindum mælanlegum markmiðum. Vonir standa til um að aukin þverfagleg nálgun í þjónustu við börn og unglinga og íhlutun á fyrri stigum dragi úr þörf fyrir aðkomu barnaverndar. Einnig að kröfur um ítarlegar greiningar minnki og færri börn í Hafnarfirði þrói með sér fjölþættan vanda.   

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna HÉR

Ábendingagátt