Brunarústir burt – Uppbygging að hefjast 

Fréttir

Niðurrif á brunarústum við Hvaleyrarbraut 22 er hafið. Svo hefst vinna við uppbygginguna en þar munu hátt í 60 íbúðir standa á toppstað við sjóinn.

Byggt upp á Hvaleyrarbraut

Niðurrif á brunarústum við Hvaleyrarbraut 22 er hafið. Verktakafyrirtækið Dverghamar hefur upp stór áform. „Staðsetningin er afar skemmtileg – nálægð við golfvöllinn og útsýni yfir sjóinn,“ segir Karl Raymond Birgisson, framkvæmdastjóri Dverghamars, fyrirtækisins sem hefur keypt lóðina af fyrri eigendum og samið um uppbyggingu hennar við Hafnarfjarðarbæ. „Það er kominn tími til að hefja uppbyggingu á svæðinu.“ 

Stefnt er að því að á lóðinni verði fjölbýlishús með að hámarki 58 íbúðum auk húsnæðis undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Dverghamar skuldbindur sig til að hafa lokið uppbyggingunni á fimm árum. Fjölbýlishúsið bætist í hóp annarra verkefna og fjölbýlishúsa sem rísa á svæðinu og munu bæta jákvæða ásýnd svæðisins. 

Niðurrif brunarústanna er hafið.

Fagnar áfanganum

Valdimar Víðisson bæjarstjóri fagnar því að uppbygging sé að hefjast. Hér er um að ræða mikilvægan áfanga í uppbyggingu íbúða og þjónustu á svæðinu og fyrir Hafnfirðinga alla. Það er mikið fagnaðarefni að niðurrif sé hafið og að brunarústirnar verði farnar á næstu vikum. 

Eins og Hafnfirðingar þekkja eyðilagðist stærstur hluti fasteigna á lóðinni í eldsvoða þann 20. ágúst 2023. Markmið samningsins við Dverghamar er að hraða hreinsun brunarústa og flýta fyrir uppbyggingu á lóðinni. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á henni verði 5.711 fermetrar íbúðarhúsnæðis,120 fermetrar atvinnuhúsnæðis, 2.400 fermetrar bílakjallari og 500 fermetrar geymslur.  

Aðkoma að bílastæðum verður frá Lónsbraut. Lágmarkskröfur fyrir bílastæði eru eitt stæði fyrir íbúðir sem eru minni en 80 fermetrar, tvö bílastæði fyrir íbúðir sem eru stærri en 80 fermetrar og eitt stæði fyrir hverja 50 fermetra atvinnurýmis. Heimilt er að byggja fleiri bílastæði. 

Nærri 40 ára saga

Dverghamar á langa sögu í Hafnarfirði. „Við höfum byggt hér í Hafnarfirði frá árinu 1986 og erum spenntir fyrir því að halda því áfram,“ segir Karl. „Við vorum að klára byggingu í Hringhamri og höfum byggt á Völlunum. Þetta eru orðin ansi mörg verkefni á tæpum 40 árum.“ 

Já, hafnarsvæðið hér í firðinum fagra tekur á næstu árum miklar breytingar og hefur Hafnarfjarðarbær horft til uppbyggingar þar í kjölfar samþykktar á nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Stefnt er á að byggja upp blandaða byggð með íbúðum og þjónustustarfsemi. Svæði við Hafnarfjarðarhöfn og í nágrenni hennar sem hafa hingað til verið ætluð undir atvinnustarfsemi eru þar á meðal.  

Ábendingagátt