Bryndís tekur við Nýsköpunarsetrinu við Lækinn

Fréttir

Nýsköpunarsetrið við Lækinn hefur fengið nýjan forstöðumann sem mótar nú starfsemina og stefnir á að vera kominn á fullt skrið í haust. Gamli Lækjarskóli fyllist nú aftur af lífi og leik enda verður margt í boði og brallað í húsinu.

Nýsköpunarsetrið fær nýjan forstöðumann

„Hér hefur heilmikil vinna farið fram en nú tek ég við og opna Nýsköpunarsetrið,“ segir Bryndís Steina Friðgeirsdóttir, nýr forstöðumaður Nýsköpunarsetursins við Lækinn. Nýsköpunarsetrið er staðsett á jarðhæðinni í gamla Lækjarskóla. Þar munu því sem fyrr kvikna hugmyndir, verk og meira líf færast í húsið þegar líður á árið.

„Mér líst mjög vel á verkefnið,“ segir Bryndís sem stóð í stórræðum þegar fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar leit við. Tók á móti vörubrettum frá IKEA með eldhúseyjum og skrifstofubúnaði, svo hugmyndirnar geti orðið að veruleika.

„Við erum núna að fara af stað í tiltekt og uppröðun til þess að gera húsið tilbúið. Rýmið okkar er á fyrstu hæð hússins. Þar er fyrirhugað að hægt verði að vinna áfram í 3D, laser og vinyl skera svo eitthvað sé nefnt,“ segir Bryndís og hleypur um gangana að sýna rýmið sem ætlað er Nýsköpunarsetrinu og ungmennahúsinu, sem flytur í húsið.

„Við munum leita eftir því að getum komið af stað námskeiðum tengt listum og skapandi vinnu. Síðast en ekki síst þá kemur hér einnig inn starfsemi ungmennahúss. Þannig það eru spennandi tímar framundan.“ Starfsemin muni blómstra jafnt og þétt og raunhæft að vera komin á fullt skrið í haust.

Þekkti framtíðarsýnina

Bryndís var áður menntasérfræðingur hjá FAB LAB Reykjavík og sá um erlend verkefni. „Það er stafræn smiðja sem er einn af vísunum sem verður hér hjá okkur,“ segir hún. „Ég kom hér við í vor og hitti fyrirrennara minn og þekkti því framtíðarsýn hússins, sótti um og fékk starfið.“

Bæði Bryndís og maðurinn hennar vinna nú í Hafnarfirði, hann í Hraunvallaskóla. Þau hafa kynnist góða bæjarbragnum og heillast af. „Það verður gaman að kynnast betur annarri starfsemi í bænum, eins og St. Jó, menningarsöfnunum og bókasafninu,“ segir hún. „Það verður líka skemmtilegt að komast enn betur inn í þennan jákvæða anda sem ég finn að hér er.“

Spennt fyrir hugmyndum

Bryndís hvetur fólk til að kynna sér starfsemina og taka þátt. Afar gott sé að koma í gamla Lækjarskóla.

„Það er augljóst að mörgum þykir mjög vænt um þetta hús,“ segir hún. „Það er eiginlega varla maður sem ekki á sögu sem tengist húsinu.“ Fólk eigi góðar minningar úr húsinu.

„Og það væri frábært að skapa nýjar hér í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn.“

Ábendingagátt