Brynja fær stofnframlag til kaupa á 16 íbúðum

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur samþykkt að veita Brynju leigufélagi stofnframlag til kaupa á 16 íbúðum til úthlutunar fyrir öryrkja. Íbúar í Hafnarfirði verða í forgangi við úthlutun.

Stofnframlag til Brynju til kaupa á 16 íbúðum 

Hafnarfjarðarbær hefur samþykkt að veita Brynju leigufélagi stofnframlag til kaupa á 16 íbúðum til úthlutunar fyrir öryrkja.  

Sótt var um stofnframlög vegna: 

  • 8 tveggja herbergja íbúða 
  • 4 fyrir þriggja herbergja íbúða 
  • 4 fjögurra herbergja íbúða 

Framlag Hafnarfjarðar er 12% af heildarstofnvirði, sem er um 139 m.kr. til greiðslu á þessu ári. 

„Mikilvægt er að leita fjölbreyttra leiða til að fjölga íbúðum í félagslegu úrræði. Þessi samningur er því afar mikilvægur fyrir okkur hér í Hafnarfirði,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri. 

Fram kemur í greinargerð nefndar Hafnarfjarðarbæjar um stofnframlög að mjög gott samstarf hafi verið á milli Brynju leigufélags og verkefnastjóra félagslegra húsnæðismála hjá Hafnarfjarðarbæ varðandi úthlutanir á íbúðum hjá Brynju árið 2025, vegna íbúða sem Hafnarfjarðarbær veitti stofnframlög til kaupa fyrir.  

Hafnfirðingar fái ákveðinn forgang

„Einstaklingum og fjölskyldum af biðlista hjá Hafnarfjarðarbæ hefur verið úthlutað íbúðum hjá Brynju, sem og einstaklingar/fjölskyldur sem voru í félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ fengu úthlutaða íbúð hjá Brynju og við það losnuðu íbúðir hjá Hafnarfjarðarbæ, sem hægt var að úthluta að nýju. Því hefur þetta samstarf góð samlegðaráhrif,“ segir þar. 

„Með því að samþykkja stofnframlag til Brynju leigufélags er Hafnarfjarðarbær að fjölga íbúðum fyrir öryrkja hjá sveitarfélaginu. Nefndin telur mikilvægt að einstaklingar sem búsettir eru í Hafnarfirði hafi ákveðinn forgang þegar kemur að úthlutun hluta íbúðanna. Hefur nú verið gefið út samþykki milli Brynju leigufélags og Hafnarfjarðarbæjar sem fjallar um að lágmarki 75% íbúðanna fari til þeirra sem búa í Hafnarfirði.“ 

Brynja á og rekur íbúðir fyrir öryrkja 

Hlutverk Brynju er að eiga og reka íbúðir fyrir öryrkja. Almennum íbúðum Brynju er úthlutað til leigjenda sem eru undir skilgreindum tekju- og eignarmörkum og er farið eftir því hversu lengi viðkomandi aðili hefur verið á biðlista eftir íbúð. 

 

 

 

Ábendingagátt