Búist við þúsundum í Jólaþorpinu í Hafnarfirði – Sjáðu hver verða!

Fréttir Jólabærinn

Jólaþorpið í hjarta Hafnarfjarðar opnar í dag kl. 17. 200.000  jólaljós og hátt í 50 verslanir verða á svæðinu þær sex helgar sem Jólaþorpið verður opið. Tendrað verður á Cuxhaven-vinabæjarjólatrénu okkar um kl. 18.40

Jólaljós, bros og skautasvell í Jólaþorpinu

200.000  jólaljós og hátt í 50 verslanir verða á svæðinu þær sex helgar sem Jólaþorpið  í Hafnarfirði verður opið. Jólaþorpið er 22 ára. Það opnar í dag 14. nóvember kl. 17.

„Það er vart hægt að lýsa því hvað Jólaþorpið hefur gert fyrir Hafnarfjörð; meiri gleði, sterkari hefðir. Hingað streyma fjölskyldur ár eftir ár, sækja steikina, gjafir og gómsæti, en þó fyrst og fremst í félagsskap hvers annars,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri.

Valdimar ásamt Clarissu Duvigneau, sendiherra Þýskalands, og Wolf Dick, ræðismanni Íslands í Cuxhaven, tendra á vinabæjartrénu um klukkan 18.40. Það verður nú gert í 37. sinn. Stundin verður skreytt með gullfallegum tónum fyrir og eftir.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar blæs jólatóna kl. 18, karlakórinn Þrestir syngur korteri seinna og Árni Beinteinn og Sylvía syngja bestu jólalög barnanna eftir að tréð verður ljómað ljósum.

Tuttugu jólahús prýða Jólaþorpið í Hafnarfirði og fjölmargar verslanir á Strandgötu verða með opið á sama tíma og Jólaþorpið, þar á meðal Sigga & Timo, Kaki, Burkni, Litla Hönnunar Búðin, Litla Gallerý,  Pipar og Salt og Petria. Hjartasvellið, vistvænt skautasvell, er komið á sinn stað til móts við Bæjarbíó. Bærinn breytir algjörlega um ham.

„Já, Hafnarfjörður breytir um ham. Við jólum bæinn upp og njótum alla aðventuna,“ segir Valdimar.

Fyrsta helgin verður þétt og frábært að staldra við í glerhúsunum á Thorsplani, upplifunarhúsunum:

  • Á föstudag: boðið uppá malt & appelsín frá Ölgerðinni
  • Laugardag: boðið uppá popp og lukkuhjól frá Stjörnu (Iðnmark)
  • Sunnudag: Pláneta skynjunarleikur

En hvað er svo að finna í jólahúsunum:

  • Krakkakrútt.is býður föndur, leikföng og skemmtilegar gjafir fyrir alla aldurshópa.
  • Korterí & Lasergaurinn sýna persónulegar jólagjafir, kort og handgerðar vörur.
  • is býður upp á handverk frá skapandi Íslendingum.
  • Svarfdal Design fangar víkingaandann í hlekkjasmíði og macramé
  • Sylwia Olszewska og Marzena Harðarson sýna falleg handverk úr tré og mosa.
  • is og Blueberry koma með vandaðar gjafir, húðvörur og hátíðarskraut sem gleður bæði auga og sál.
  • Sætindaunnendur fá sitt þegar ÚTÚRKÚ kynnir handgert súkkulaði með íslenskum blæ.
  • Kandís brjóstsykur býður sælgæti úr íslenskum jurtum og náttúrulegum litum.
  • Íslensk hollusta, sem fagnar 20 ára afmæli, sýnir vörur úr íslenskum berjum, jurtum og þara.
  • Háafell geitfjársetur kemur með náttúrulegar afurðir úr sveitinni.

Þetta er alls ekki allt, því margt matarkyns verður á boðstólnum:

  • Helvítis býður bragðmiklar sultur og nýjungar úr íslensku hráefni.
  • Matarkompaní verður með villibráð og sósur.
  • Bæjarbakarí með bakstur og jólagómsæti.
  • Lángos vagninn með ungverska rétti.
  • Turf House með franskar í nýrri og spennandi útfærslu.
  • Í miðjuhúsinu stendur Brikk vaktina en á boðstólnum verður Ali jólapylsa, Brikk jólapungar og Góu heitt súkkulaði svo eitthvað sé nefnt.

Svo allt sætmetið í Jólaþorpinu.

  • Churros Wagon býður stökkar og heitar churros.
  • Önnu Konditori gleður með dönskum eplaskífum, smákökum og lagtertum.

Já, Jólaþorpið í Hafnarfirði býður þér í töfrandi stemningu. Þar finnur þú handverk, kræsingar og gjafahugmyndir fyrir alla! Hátíðleg stemning, ilmandi kræsingar og skapandi handverk fylla hjarta Hafnarfjarðar . Komdu og taktu þátt í gleðinni með okkur í Jólaþorpinu.

Ábendingagátt