Byggðasafn í bleiku ljósi

Fréttir

Hinn formlegi bleiki mánuður er genginn í garð. Við hjá Hafnarfjarðarbæ böðum okkur með bleikum ljósum við Byggðasafn Hafnarfjarðar og Lækinn í október og viljum með því sýna stuðning við baráttuna gegn krabbameini hjá konum.

Hinn formlegi bleiki mánuður er genginn í garð þar sem bleiki liturinn tekur öll völd. Við hjá Hafnarfjarðarbæ böðum okkur með bleikum ljósum við elsta hús Hafnarfjarðar, sjálft Sívertsen-húsið og Lækinn í október og viljum með því sýna stuðning við baráttuna gegn krabbameini hjá konum. Hinn eiginlegi bleiki dagur er föstudagurinn 14.október og munu allir starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar vera hvattir til að klæðast bleiku þann daginn og það helst frá toppi til táar.

Bleika slaufan – átaksverkefni Krabbameinsfélagsins

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og greinist kona með brjóstakrabbamein á um 40 klukkustunda fresti árið um kring. Margt jákvætt hefur áunnist og geta nú 90% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein vænst þess að lifa lengur en 5 ár sem er mjög góður árangur á heimsvísu. Mikilvægasta leiðin til að fjölga konum sem lifa sjúkdóminn af er skipuleg leit að brjóstakrabbameini sem býðst öllum konum á Íslandi á aldrinum 40-69 ára. Með röntgenmynd af brjóstum er hægt að finna mein á byrjunarstigi og er slík leit talin lækka dánartíðni um allt að 40% af völdum sjúkdómsins. Öllu söfnunarfé Bleiku slaufunnar verður í ár varið óskertu til endurnýjunar tækjabúnaðar til skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini. Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn brjóstakrabbameins en á árunum 2010 til 2015 beindist athyglin að öllum krabbameinum hjá konum hér á landi.

Allar nánari upplýsingar um átakið er að finna hér: https://www.bleikaslaufan.is/

Ábendingagátt