Byggðasafnið aldrei fengið fleiri styrki í einu

Fréttir

Byggðasafn Hafnarfjarðar hlaut 5,9 milljónir króna í styrki við aðalúthlutun safnasjóðs Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.

Byggðasafnið styrkt til góðra verka

Byggðasafnið hlaut 5,9 milljónir króna í styrki við aðalúthlutun safnasjóðs Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins. Styrkirnir efla sýningar og sögu Hafnarfjarðarbæjar á ólíkan máta í ár. Þeir skiptast svona:

  • 1,1 milljón vegna sýningar á Strandstígnum en þar verður ný ljósmyndasýning sett upp 1. júní.
  • 1,5 milljónfara í endurbætur á Siggubæ. Þar verður sett upp ný sýning um alþýðukonuna. Litið verður til daglegs lífs alþýðukvenna í Hafnarfirði á 20. öld og opnar sýningin fyrsta föstudag í júnímánaðar.
  • 1,5 milljón fara í þemasýningu í pakkhúsinu. Þar verður íþróttasögu Hafnarfjarðar gerð góð skil.
  • 1,8 milljón króna fara svo í innra starf á lagernum. Þarft verk til stuðnings allra sýninga bæjarins

„Við höfum ekki áður fengið svo marga styrki,“ segir Björn Pétursson bæjarminjavörður.

„Við lítum svo á að afraksturinn sé vegna þeirra áhugaverðra verkefna sem við vinnum að. Það gerast góðir hlutir hér í Hafnarfirði. Styrkirnir sýna hversu mikilvægt er að vernda söguna og miðla henni.“

Björn segir spennandi starf fram undan. „Sagan lifnar við þegar við horfum til baka og þannig tryggjum við að við vitum úr hverju við erum gerð.“ Hann segir sýninguna um alþýðukonur einkar áhugaverð.

„Sigga sjálf segir í erfðaskrá sinni að það sé hennar vilji að komandi kynslóðir viti  hvernig lífið var á 20. öldinni. Við lýsum því hverstagsleika alþýðukvenna upp. Það er krefjandi að gera það, því ekki hefur mikið verið ritað um almennt líf kvenna á þessum árum.“

Styrkirnir efli söguskoðuna. „Við segjum því takk.“

Ábendingagátt