Carbfix hverfur frá áformum sínum og fer annað

Fréttir

Carbfix hefur hætt við áform sín um uppbyggingu Coda Terminal í Hafnarfirði. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu á föstudag. Bæjarstjóri segir óvissuþættina hafa verið of marga og bæði íbúar og kjörnir fulltrúar haft efasemdir.

Coda Terminal verkefninu hætt  í Hafnarfirði

Carbfix hefur hætt við áform sín um uppbyggingu Coda Terminal í Hafnarfirði. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu á föstudag.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir ljóst að þúsundir íbúa hafi haft áhyggjur af þessu verkefni. Margir óvissuþættir hafi verið tengdir verkefninu og áhyggjur því eðlilegar.

Of margir óvissuþættir

„Álit Skipulagsstofnunnar var lagt fram fyrir nokkrum vikum og áfram voru margir óvissuþættir. Bæjarfulltrúar, margir hverjir, voru farnir að hafa efasemdir um verkefnið, ég þar á meðal eins og komið hefur fram í bæjarstjórn og fjölmiðlum,“ segir hann. Efasemdir bæjarbúa og fulltrúa sem og fyrirhuguð gjöld hafi leitt til þessarar niðurstöðu.

Færa verkefnið í aðra landshluta

Þetta staðfestist í yfirlýsingu Carbix vegna Coda Terminal. Þar segir að ekki hafi náðst samhljómur milli fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og Carbfix um framgang uppbyggingar.

„Carbfix hefur ákveðið að færa áherslur í loftslagsverkefnum sínum yfir á innlenda stóriðju í samræmi við samstarfssamninga við bæði Elkem á Grundartanga og Rio Tinto í Straumsvík, og þróa áfram möguleg verkefni í Þorlákshöfn og á Bakka við Húsavík,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við tökum með okkur lærdóm frá þessu verkefni og höldum ótrauð áfram. Markmið Carbfix er áfram að útvíkka starfsemi sína og vera hluti af lausninni,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, í yfirlýsingunni sem gefin var út á föstudag.

 

 

Ábendingagátt