COVID-19: Takmarkanir innanlands framlengdar til 20. október

Fréttir

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að framlengja gildandi sóttvarnaráðstafanir innanlands vegna faraldurs Covid-19. Reglugerð heilbrigðisráðherra þess efnis hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar og gildir hún til og með 20. október næstkomandi.

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að framlengja gildandi sóttvarnaráðstafanir innanlands vegna faraldurs Covid-19. Reglugerð heilbrigðisráðherra þess efnis hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar og gildir hún til og með 20. október næstkomandi.

Sjá tilkynningu á vef Stjórnarráðsins 

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er þróun faraldursins rakin frá því að öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hér á landi var aflétt 26. júní síðastliðinn og slakað á sýnatökum hjá farþegum á landamærunum. Sóttvarnalæknir bendir á að þessar tilslakanir hafi verið gerðar í ljósi þess að smit innanlands voru fátíð og um 70% þjóðarinnar fullbólusett. Tveimur til þremur vikum eftir afléttingu sóttvarnaaðgerða hafi smitum innanlands tekið að fjölga, fjölgun hafi orðið á innlögnum á Landspítala og alvarleg veikindi aukist. Í þessari bylgju hafi smit og alvarleg veikindi verið algengari en áður hjá óbólusettum börnum og tvö alvarlega veik börn lagst inn á sjúkrahús.

Eins og sóttvarnalæknir rekur voru aðgerðir innanlands og á landamærum hertar í kjölfar fjölgunar smita og í kjölfarið fækkað þeim og eru nú um 20-60 á dag, breytilegt eftir daglegum fjölda tekinna sýna. Hann vísar til margvíslegra tilslakana hjá öðrum þjóðum þar sem breytilegt er hvort þær hafi leitt til aukinnar útbreiðslu. Þá spái sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) aukinni útbreiðslu í byrjun vetrar og hafi hvatt þjóðir til að viðhafa áfram nauðsynlegar sóttvarnir, þar á meðal fjöldatakmarkanir, nándarreglu og notkunar andlitsgrímu við skilgreinda viðburði. „Í ljósi þróunar faraldursins erlendis og reynslunnar hérlendis af fullri afléttingu takmarkana þá tel ég varhugavert að slaka meira á þeim sóttvarnaaðgerðum innanlands en þeim sem nú eru í gildi“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis leggur hann til að óbreyttar takmarkanir innanlands verði framlengdar í a.m.k. einn mánuð. Ráðherra fellst á framlengingu en telur rétt að sú ákvörðun verði endurskoðuð eftir hálfan mánuð.

Ábendingagátt