Covid19: Takmörkun á skólastarfi frá 3. nóvember

Fréttir

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða tekur gildi 3. nóvember. Sett er það markmið að sem minnst röskun verði á skólastarfi og að starf á leikskólastigi og á fyrsta stigi grunnskóla verði óskert. 

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða tekur gildi 3. nóvember. Sett er það markmið að sem minnst röskun verði á skólastarfi og að starf á leikskólastigi og á fyrsta stigi grunnskóla verði óskert. Að ráði sóttvarnalæknis verður reglu um grímuskyldu breytt þannig að hún eigi ekki við um börn fædd 2011 og síðar.

Sjá frétt á vef Stjórnarráðsins 

Reglugerðin byggist á tillögum sóttvarnalæknis um hertar sóttvarnaaðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 faraldursins og er unnin í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún tekur til leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla, hvort sem um ræðir opinbera eða einkarekna skóla. Reglugerðin tekur einnig til annarrar starfsemi, svo sem frístundaheimila og félagsmiðstöðva, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfs.

Leikskólar

  • Ekki skulu vera fleiri en 50 leikskólabörn í hverju rými. 
  • Leikskólabörn eru undanþegin 2 metra nálægðartakmörkun. 
  • Starfsfólk skal halda 2 metra nálægðartakmörkunum sín á milli og sé það ekki hægt skal starfsfólk nota andlitsgrímur. 
  • Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri er óheimilt, jafnt innan og utan leikskóla.

Grunnskólar

  • Fyrsta skólastig, þ.e. 1.–4. bekkur: Nemendur eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun og þurfa ekki að nota andlitsgrímur. Alls mega 50 nemendur vera í sama rými. Sömu reglur gilda um frístundaheimili fyrir nemendur í 1.–4. bekk.
  • 5.–10. bekkur: Nemendur mega að hámarki vera 25 í hverju rými. Um þá gilda 2 metra nálægðartakmörk og ef ekki er hægt að uppfylla þau skulu nemendurnir nota grímu. Starfsfólk skal jafnframt halda 2 metra regluna og nota grímu sé það ekki mögulegt.
  • Starfsfólk grunnskóla: Ekki skulu vera fleiri en 10 starfsmenn í hverju rými en starfsmönnum er heimilt að fara á milli hópa. Starfsmenn skulu virða 2 metra regluna sín á milli og gagnvart nemendum í 5.–10. bekk. Sé það ekki hægt skulu þeir bera grímur.
  • Fjöldamörk og blöndun hópa: Halda skal sömu hópaskiptingu nemenda í grunnskólastarfi og á frístundaheimilum þannig að ekki verði blöndun milli nemendahópa. Í sameiginlegum rýmum skóla er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkum og reglu um blöndun hópa, að því gefnu að nemendur í 5.–10. bekk og starfsfólk noti grímu.
  • Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, þ.m.t. starf félagsmiðstöðva, barna á grunnskólaaldri er óheimilt.

Tónlistarskólar

  • Tónlistarskólum er heimilt að sinna einstaklingskennslu með 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda. 
  • Ekki er fleiri en tíu einstaklingum, þ.e. starfsfólki og nemendum, heimilt að vera í sama rými í einu, en gæta þarf að því að ekki verði um frekari blöndun hópa að ræða en í skólastarfi.
  • Andlitsgrímur skulu notaðar í öllu starfi með nemendum þar sem því verður við komið.
  • Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma í tónlistarskóla nema brýna nauðsyn beri til. Aðrir en starfsmenn sem koma í tónlistarskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur. 

Fyrsta námsár á framhaldsskólastigi

Í skylduáföngum á framhaldsskólastigi sem teknir eru á fyrsta námsári er heimilt að hafa allt að 25 einstaklinga í rými, að því gefnu að hægt sé að halda 2 metra nálægðartakmörkum.

Framhaldsskólastig, háskólar og tónlistarskólar

  • Almennt gildir regla um 10 manna fjöldatakmörk.
  • 2 metra nálægðarmörk og grímuskylda í háskólum og tónlistarskólum og einnig á framhaldsskólastigi, að undanskildum áföngum á fyrsta námsári. 
  • Blöndun nemenda milli hópa í kennslu er ekki heimil, en starfsfólki og kennurum er heimilt að fara á milli hópa. Í sameiginlegum rýmum skóla er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa, að því gefnu að notaðar séu andlitsgrímur.
  • Heimilt er að halda úti verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi með sömu fjöldatakmörkun þótt ekki sé hægt að framfylgja 2 metra nálægðarmörkum en nemendum og kennurum er þá skylt að nota andlitsgrímur.

Reglugerð um takmörkun á skólahaldi vegna farsóttar

Ábendingagátt