Dagdvöl á Sólvangi opnuð á ný

Fréttir

Dagdvöl á Sólvangi var opnuð í gær eftir miklar endurbætur á húsnæðinu og er óhætt að segja að notendur þjónustunnar hafi mætt glaðbeittir til leiks að nýju eftir ansi langa fjarveru. Dagdvölinni var upphaflega lokað vegna Covid19 faraldursins í byrjun mars og í framhaldinu farið af stað með viðamiklar endurbætur á fyrstu hæð í eldri hluta Sólvangs sem hýst hefur dagdvölina um árabil. 

Dagdvöl á Sólvangi var opnuð í gær eftir miklar endurbætur á
húsnæðinu og er óhætt að segja að notendur þjónustunnar hafi mætt glaðbeittir
til leiks að nýju eftir ansi langa fjarveru. Dagdvölinni var upphaflega lokað
vegna Covid19 faraldursins í byrjun mars og í framhaldinu farið af stað með viðamiklar
endurbætur á fyrstu hæð í eldri hluta Sólvangs sem hýst hefur dagdvölina um
árabil. Aðstaðan er orðin hin glæsilegasta, í senn heimilisleg og hlýleg sem
fellur afar vel að fallegu umhverfi Sólvangs. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa
Guðbjartsdóttir, leit við í stutta stund á Sólvangi á þessum fyrsta degi
dagdvalar eftir langt hlé en formleg opnun og opið hús mun eiga sér stað þegar
aðstæður leyfa og létt hefur verið á öllum takmörkunum.

IMG_4855_1601642664430Það er óhætt að segja að notendur þjónustunnar hafi mætt glaðbeittir til leiks að nýju eftir ansi langa fjarveru.

„Þessi kærkomna
uppbygging er í samræmi við áætlanir sveitarfélagsins um miðstöð
öldrunarþjónustu á Sólvangssvæðinu. Hafnarfjarðarbær hefur til viðbótar við
þessi rými fengið úthlutað tólf rýmum fyrir sérhæfða dagþjálfun sem einnig mun
verða rekin á fyrstu hæð Sólvangs. Endurbætur á þeim hluta húsnæðis standa yfir
þessa dagana“
segir Rósa.

IMG_4846Aðstaðan er orðin hin glæsilegasta, í senn heimilisleg og hlýleg. 

Stuðningsþjónusta
fyrir aldraða sem búa í heimahúsum

Dagdvölin á Sólvangi er tímabundin stuðningsþjónusta fyrir
aldraða sem búa í heimahúsum þar sem boðið er upp á tómstundaiðkun, aðstöðu til
léttra líkamsæfinga, máltíðir, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Einnig er á
staðnum veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og í boði akstur til og frá heimili.
Dagdvöl fyrir eldri borgara hefur verið rekin á Sólvangi frá 1.júní 2013 þegar
velferðarráðuneytið veitti heimild til rekstur átta dagdvalarrýma. Í byrjun árs
2018 var rýmunum fjölgað um sex og hafa fjórtán rými verið rekin á Sólvangi frá
þeim tíma. Dagdvölin var rekin af rekstraraðila Sólvangs fyrstu árin en Sóltún Öldrunarþjónusta
tók við rekstrinum árið 2019 og sér Sóltún jafnframt um reksturinn á
hjúkrunarheimilinu á Sólvangi. 

Ábendingagátt