Dagforeldrar eiga hlutdeild í mörgum hjörtum  

Fréttir

Dagforeldrar eru mikilvægur burðarstólpi í dagvistunarflórunni. Þær Hildur Guðmundsdóttir og María Kristinsdóttir hafa starfað sem dagforeldrar í 20 ár eða frá árinu 2002 og vill Hafnarfjarðarbær með heimsókn og örlitlum glaðningi þakka þeim af heilum hug fyrir faglegt og fallegt framlag til dagvistunarmála í Hafnarfirði.

Hildur og María fá viðurkenningu fyrir faglegt dagforeldrastarf til 20 ára  

Dagforeldrar eru mikilvægur burðarstólpi í dagvistunarflórunni. Í dag eru alls 26 dagforeldrar starfandi í Hafnarfirði og margir hverjir sem hafa helgað sig starfinu og geta státað af löngum starfsaldri, ómetanlegri starfsreynslu, minningum og tengingum sem fylgja ævina á enda. Þær Hildur Guðmundsdóttir og María Kristinsdóttir hafa starfað sem dagforeldrar frá árinu 2002 og vill Hafnarfjarðarbær með heimsókn og örlitlum glaðningi þakka þeim af heilum hug fyrir faglegt og fallegt framlag til dagvistunarmála í Hafnarfirði.

María Kristinsdóttir dagforeldri í Áslandi með Maríu Baldursdóttur daggæslu- og innritunarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

María Kristinsdóttir dagforeldri í Áslandi með Maríu Baldursdóttur daggæslu- og innritunarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Hildur Guðmundsdóttir dagforeldri í Áslandi með Maríu Baldursdóttur daggæslu- og innritunarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Hildur Guðmundsdóttir dagforeldri í Áslandi með Maríu Baldursdóttur daggæslu- og innritunarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Skapandi og gefandi starf sem byggir á trausti

Starf dagforeldra er fjölbreytilegt og skapandi og byggir í grunninn á góðu og traustu sambandi milli barns, dagforeldris og foreldra. Dagforeldrar hafa lítinn hóp yngstu barna í vistun hjá sér hverju sinni á tímabili í lífinu þar sem uppgötvun og lærdómur er svo mikill. Ánægju- og gleðistundirnar sem fylgja fyrstu árunum, upplifun barnanna og lærdómur verða að einskonar sameign dagforeldra og foreldra og eignast dagforeldrar hlutdeild í mörgum barna- og foreldrahjörtum. Þannig muna margir, börn á öllum aldri, meðal annars eftir þeim Hildi og Maríu.

Hafnarfjarðarbær vill fjölga í hópi dagforeldra

Dagforeldrar í Hafnarfirði eru sjálfstætt starfandi en fá starfsleyfi frá sínu sveitarfélagi samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Daggæslufulltrúi Hafnarfjarðarbæjar hefur umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra auk þess að veita þeim faglega ráðgjöf frá degi til dags. Hafnarfjarðarbær vill fjölga í hópi dagforeldra og nýverið samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingar sem eiga að hafa hvetjandi áhrif á áhugasama og taka gildi frá og með 1. janúar 2023. Eftirspurn eftir þjónustu dagforeldra er mikil og nokkuð ljóst að ákveðinn hópur barna unir sér vel og stundum betur í smærri hópum og í heimilislegum aðstæðum.

Nánari upplýsingar um störf dagforeldra í Hafnarfirði

Ábendingagátt