Dagur gegn einelti – sýnum ábyrgð og bregðumst öll við

Fréttir

Dagurinn 8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Skólarnir í Hafnarfirði hafa tekið virkan þátt í verkefninu um árabil með kærleiksknúsum og vináttuvikum. Nemendur og starfsfólk eru hvött til að mæta í grænu.

„Hjarta mitt er fullt af tilfinningum“

Dagurinn 8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Skólarnir í Hafnarfirði hafa tekið virkan þátt í verkefninu um árabil með kærleiksknúsum og vináttuvikum. Sammerkt með vinavikum grunnskólanna er að skólarnir hafa helgað vikunni vináttu og samkennd og er skólastarf sniðið að verkefnum sem kalla á samvinnu og samstarf allra aldurshópa. Nemendur og starfsfólk eru hvött til að mæta í grænu.

Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræða um einelti og afleiðingar

Í fjölmörgum skólum hefur vinavika verið í gangi alla vikuna ásamt vinaleikum og fjölgreindaleikum þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp. Fjölbreyttar stöðvar eru settar upp um skólana þar sem hæfileikar hvers og eins nemanda og kennara fá að njóta sín og allur aldur starfar saman. Elstu nemendurnir hugsa vel um þá yngstu í sínum hópi, leiðbeina þeim og sýna þeim virðingu, umhyggju og kærleik. Einelti hefur margvíslegar afleiðingar bæði fyrir nemendur sem verða fyrir því og þeirra fjölskyldur. Vert er að muna að gerendur eru gjarnan börn sem sjálf hafa þolað einelti og finnst þau valdalaus. Oft er það hinn þögli meirihluti sem lætur einelti viðgangast en færri sýna ábyrgð og bregðast við. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um einelti og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Öflug forvörn gegn einelti er að veita börnum skipulega þjálfun í að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti er haft að leiðarljósi. Þessi færni er liður í því að gera umhverfið jákvæðara þar sem einelti nær síður að skjóta rótum

Jákvæður skólabragur skiptir sköpum fyrir líðan og starfsgleði

Það er ósk Menntamálastofnunar að dagur gegn einelti veiti skólum tækifæri til að auka vitund um mikilvægi jákvæðra samskipta og að gefa út þau skilaboð að brugðist sé við neikvæðu atferli og einelti. Með deginum er hvatt til þess að allir leggi sitt framlag á vogarskálarnar til að stuðla að gagnkvæmri virðingu, samkennd og jákvæðum samskiptum í skólum. Jákvæður skólabragur skiptir sköpum fyrir líðan og starfsgleði nemenda og starfsfólks og getur haft sömu áhrif og besta forvarnarstarf. Hafnarfjarðarbær og Heimili og skóli – landssamtök foreldra vinna náið og vel saman í þeirri vegferð að ýta undir og efla enn frekar öflugt foreldra-, forvarna- og fræðslustarf í sveitarfélaginu meðal annars með markvissri fræðslu og ráðgjöf frá sérfræðingum Heimilis og skóla. Nemendur í öllum 6. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar fá svokallaða SAFT fræðslu undir heitinu Verum snjöll en SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni – er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Allir leikskólar, grunnskólar og foreldrafélög í Hafnarfirði eru með sinn tengilið hjá Heimili og skóla sem tryggir skilvirka þjónustu, markvissa eftirfylgni og annan þann mikilvæga stuðning sem Heimili og skóli innir af hendi.

Vefur Heimilis og skóla

Ábendingagátt