Dagur í dag er helgaður baráttunni gegn einelti

Fréttir

Dagurinn 8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Skólarnir í Hafnarfirði hafa tekið virkan þátt í verkefninu og í fjölmörgum skólum hefur vinavika verið í gangi alla vikuna. 

Dagurinn 8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Skólarnir í Hafnarfirði hafa tekið virkan þátt í verkefninu og í fjölmörgum skólum hefur vinavika verið í gangi alla vikuna ásamt vinaleikum og fjölgreindaleikum þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp. Fjölbreyttar stöðvar eru settar upp um skólana þar sem hæfileikar hvers og eins nemanda og kennara fá að njóta sín og allur aldur starfar saman. Elstu nemendurnir hugsa vel um þá yngstu í sínum hópi, leiðbeina þeim og sýna þeim virðingu, umhyggju og kærleik. 

Hátíðardagskrá gegn einelti í Öldutúnsskóla

Hátíðardagskrá gegn einelti var haldin í dag í Öldutúnsskóla en hátíðin er á vegum Menntamálastofnunar.  Þar flutti kór Öldutúnsskóla tónlistaratriði, Sigríður Lára Haraldsdóttir, formaður fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum flutti ávarp, Lilja D. Alfreðsdóttir flutti ávarp ásamt því að veita hvatningarverðlaun dags gegn einelti.  Hvatningarverðlaun þetta árið fengu Vinaliðar fyrir verkefni sem er til þess fallið að eyða öllu sem heitir einelti. Um er að ræða forvarnarverkefni sem keyrt er í frímínútum á skólalóðum.  Þannig eru ákveðnir nemendahópar innan grunnskóla þjálfaðir upp í að vera vinaliðar og þar með góðar fyrirmyndir sem bera virðingu fyrir öllu og öllum.  Margrét Sverrisdóttir aðstoðarskólastjóri Öldutúnsskóla kynnti þar næst verkefni í tengslum við eineltisáætlun Öldutúnsskóla og lauk Svavar Knútur dagskránni með tveimur lögum.  Ástæðan fyrir vali á Öldutúnsskóla sem hátíðarstað er meðal annars góður árangur skólans í eineltismálum.  Skólinn starfar eftir Olweusaráætlun og hefur m.a. komið upp reglubundnum morgunfundum með foreldrum þar sem þau ræða líðan sinna barna í fullum trúnaði. Þessir fundir hafa verið mjög vel sóttir.  Vinaviku í Öldutúnsskóla lauk svo með samsöng í dag og vinakeðju þegar vinaárgangar fóru saman og mynduðu vinakeðju í kringum skólann sinn. Vinakeðjan er táknrænn endir á vel heppnaðri vinaviku. 

Afleiðingar eineltis geta verið margvíslegar

Einelti hefur margvíslegar afleiðingar bæði fyrir nemendur sem verða fyrir því og þeirra fjölskyldur. Vert er að muna að gerendur eru gjarnan börn sem sjálf hafa þolað einelti og finnst þau valdalaus. Oft er það hinn þögli meirihluti sem lætur einelti viðgangast en færri sýna ábyrgð og bregðast við. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um einelti og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Öflug forvörn gegn einelti er að veita börnum skipulega þjálfun í að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti er haft að leiðarljósi. Þessi færni er liður í því að gera umhverfið jákvæðara þar sem einelti nær síður að skjóta rótum.

Leggjum ÖLL okkar að mörkum

Það er ósk Menntamálastofnunar að dagur gegn einelti veiti skólum tækifæri til að auka vitund um mikilvægi jákvæðra samskipta og að gefa út þau skilaboð að brugðist sé við neikvæðu atferli og einelti. Til að auðvelda þessa viðleitni mun stofnunin á næstunni opna upplýsingasíðu um þetta málefni þar sem fagfólk, börn, ungmenni og foreldrar geta nálgast gögn og góð ráð. Með deginum er hvatt til þess að allir leggi sitt framlag á vogarskálarnar til að stuðla að  gagnkvæmri virðingu, samkennd og jákvæðum samskiptum í skólum. Jákvæður skólabragur skiptir sköpum fyrir líðan og starfsgleði nemenda og starfsfólks og getur haft sömu áhrif og besta forvarnarstarf.

Ábendingagátt