Dagur íslenskrar tungu

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur 16. nóvember ár hvert og fellur á mánudag þetta árið. 

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur 16. nóvember ár hvert og fellur á mánudag þetta árið. Þá hefst formlega Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hún er haldin í 7. bekkjum grunnskólanna. Í vetur heldur hún upp á 20 ára afmæli í Hafnarfirði og þar sem hátíðin hófst í Hafnarfirði verður hún aðeins 20 ára í Hafnarfirði í ár. Í tilefni dags íslenskrar tungu eru gjarnan haldnar hátíðir í skólunum þar sem upplestur á íslensku er mikilvægur hluti dagskrárinnar.

Á degi íslenskrar tungu hefst jafnframt í Hafnarfirði samkeppni um boðskort á lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar sem verður haldin þann 8. mars 2016. Í samkeppninni um boðskort mega 6. bekkingar grunnskólanna taka þátt. Keppnin felst í því að teikna mynd í A-5 stærð í svart-hvítu án nokkurs texta sem ekki er hluti af myndinni sjálfri. Skila skal tillögum til skólanna í síðasta lagi 8. febrúar nk.

Á degi íslenskrar tungu hefst jafnframt Litla upplestrarkeppnin í grunnskólum Hafnarfjarðar en hún er ætluð nemendum í 4. bekkjum. Keppnin tekur mið af Stóru upplestrarkeppninni þótt engin miðlæg hátíð sé haldin í lokin líkt og með þá Stóru.

Smásagnasamkeppni fyrir 8.-10. bekkinga í grunnskólum Hafnarfjarðar hefst líka á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og skil á sögum eru til 8. febrúar 2016. Efni hennar er frjálst í ár en hafa mætti til hliðsjónar hugtökin umhyggja, hugrekki eða glaðlyndi, stök eða öll saman, við sögugerðina. Hver saga skal vera 600-1000 orð og skilast til grunnskólanna. Dreifibréf keppninnar verður sent í alla skólana. Úrslit verða kynnt á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarborg í mars 2016.

Myndin er af sigurvegurum í Stóru upplestrarkeppninni í Hafnarfirði árið 2015 ásamt skólastjórum sínum.

Ábendingagátt