Dagur Jónsson

Fréttir

Dagur Jónsson veitustjóri er látinn en hann lést 9. febrúar, eftir langa og erfiða baráttu við krabbamein. Dagur er borinn til grafar í dag kl. 15 frá Hafnarfjarðarkirkju. Meðfylgjandi er minningargrein bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar. Blessuð sé minning hans.

Dagur Jónsson veitustjóri er látinn en hann lést 9. febrúar, eftir langa og erfiða baráttu við krabbamein. Dagur er borinn til grafar í dag kl. 15 frá Hafnarfjarðarkirkju. Meðfylgjandi er minningargrein bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Dagur Jónsson

DagurJonssonMig langar að minnast hér með nokkrum orðum Dags Jónssonar sem á að baki hjá Hafnarfjarðarkaupstað langan og farsælan starfsferil. Dagur hóf störf hjá bæjarverkfræðingi í Hafnarfirði 1986. Fyrstu árin sá hann m.a um mælingar en síðan þróaðist vinna hans yfir í málefni tengd Vatnsveitunni. Hann varð vatnsveitustjóri og síðan veitustjóri við sameiningu veitnanna og byggði upp þá nútíma vatnsveitu sem Vatnsveita Hafnarfjarðar er í dag. Frá 1990 hefur Hafnarfjarðarbær tvöfaldast í mannfjölda og ný hverfi byggst upp með tilheyrandi uppbyggingu vatnsveitunnar.

Á síðustu árum hefur Dagur verið að skoða framtíðarvatnsból fyrir Hafnfirðinga og hafa rannsóknir hafist í Fagradal með það í huga. Einnig var farið í byggingu miðlunartanks í Áslandi til að búa í haginn fyrir framtíðina. Dagur stýrði þessari vinnu sem vatnsveitustjóri bæjarins þar sem hann starfaði allt til dánardags. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á vatnsbúskap og jarðsögu bæjarlandsins auk þess að kunna þá list að segja skemmtilega frá og miðla þekkingu með lifandi frásögnum og sögum. Dagur hafði einnig þann góðan eiginleika að vera fastur fyrir og fylginn sér og var ástæðan yfirleitt sú að hann vissi einfaldlega betur og byggði festu sína á þekkingu og trú á verkefnum sínum og vinnu.

Óhætt er að segja að Dagur hafi sinnt störfum sínum og verkefnum af miklum áhuga og þekkingu og er stórt skarð höggvið í starfsmannahóp Hafnarfjarðarkaupstaðar við fráfall hans. Sveitarfélagið horfir ekki bara á eftir fagmanni í sínu fagi heldur horfa starfsmenn líka á eftir góðum vini og félaga til fjölda ára. Það var með ólíkindum að fylgjast með Degi berjast í veikindum sínum sem hann tókst á við af æðruleysi og aðdáunarverðum lífsvilja. Heimsókn mín til hans á sjúkrahúsið í lok síðasta árs er mér afar minnisstæð og svo lýsandi fyrir Dag eins og ég þekkti hann af okkar of stuttu kynnum. Því þrátt fyrir vanlíðan og kvalir þá hélt hann áfram að tala fyrir þeim verkefnum sem hann hefur unnið ötullega að hin síðustu ár og ræða hugmyndir og ný verkefni. Hann ætlaði að halda áfram að sinna sjálfum sér og sínum og hélt áfram að framkvæma og hugsa til framtíðar.

Dags munum við ávallt minnast með mikilli virðingu og trú á lífið.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar og starfsmanna sendi ég Þórdísi Bjarnadóttur eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldunni allri hugheilar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hans.

Haraldur L. Haraldsson
bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Ábendingagátt