Dagur leikskólans 6. febrúar

Fréttir

Sjötti febrúar er dagur leikskólans og er dagurinn m.a. haldinn hátíðlegur í leikskólum Hafnarfjarðar með það fyrir augum að draga fram mikilvægi skólastarfsins. Við óskum leikskólakennurum, leikskólabörnum, foreldrum og öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju með daginn! 

Sjötti febrúar er dagur leikskólans og er dagurinn m.a. haldinn
hátíðlegur í leikskólum Hafnarfjarðar og það í áttunda  sinn. Þennan dag árið 1950 stofnuðu
frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á
undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og
þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið. Dagurinn er helgaður því góða starfi sem fram fer í leikskólum landsins og dregið fram það sem hefur áunnist hefur m.a. með kynningarátakinu Framtíðarstarfið.

Aðgerðir sem efla og styrkja faglegt leikskólastarf

Hafnarfjarðarbær vill aðgerðum sínum og framkvæmdum draga fram mikilvægi leikskólastarfsins, skapa starfsumhverfi sem eflir og styrkir og leiða augu allra að því metnaðarfulla og faglega starfi sem unnið er innan veggja leikskóla bæjarins. Um síðustu áramót varð aukning á undirbúningstímum hjá fagfólki sem er í
Kennarasambandi Íslands. Deildarstjórar sem áður höfðu fimm undirbúningstíma hafa
nú sex tíma á viku. Leikskólakennarar og annað fagmenntað starfsfólk höfðu fjóra tíma
en hafa nú fimm tíma á viku. Markmiðið er að skapa betri tíma til að undirbúa starfið og gera skólastarfið eins faglegt og frekast er
kostur. Hafnarfjarðarbær hefur jafnframt síðastliðin tvö ár styrkt starfsfólk sem
vill hefja nám í leikskólakennaranámi og einnig þá sem vilja ná sér í
leyfisbréf sem leikskólakennarar en hafa aðra háskólamenntun í grunninn. Þetta skólaárið
eru 22 nemar bæði í grunn- og framhaldsnámi sem hljóta styrk frá
bænum.

Rýmisþörf mæld og endurskoðuð

Í aðalnámskrá leikskóla (2011) segir að „skipulag, hönnun og nýting námsumhverfis endurspegli þau viðhorf og gildi sem liggja að baki leikskólastarfinu. Umhverfið er jafnframt mikilvægur áhrifaþáttur í námi barna og þarf hönnun þess, nýting og skipulag að taka mið af reynslu, áhuga og þroska ólíkra barna“. Í skýringum með fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar 2017 var bent á
mikilvægi þess að skoða námsumhverfi barna út frá fermetrafjölda eða að endurskoða
rýmisþörf barnanna í leikskólum Hafnarfjarðar. Vinna við þetta er nú þegar hafin og er verið
að afla gagna um fermetrafjölda í hverjum leikskóla og hvernig rýmið skiptist í
skólunum, hvað er leikrými og hversu mikill hluti rýmis fer undir t.d skápa og geymslur
og annað þjónusturými. Í þessari vinnu skoðað hver fjöldi barnahópa er í hverjum skóla og
hversu mikið leikrými hver hópur hefur til ráðstöfunar. áætlað er að þessari vinnu ljúki í lok febrúar.

Við óskum leikskólakennurum, leikskólabörnum, foreldrum og öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju með daginn!

Ábendingagátt