Dagur leikskólans er 6. febrúar. Til hamingju!   

Fréttir

Á Degi leikskólans er bæði mikilvægt og verðskuldað að varpa sérstöku ljósi á það mikla og góða starf sem fram fer innan leikskóla Hafnarfjarðar. Í tilefni dagsins heimsótti bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, leikskólann Hlíðarenda.

Leikskólar landsins eiga daginn í dag. Til hamingju nemendur, starfsfólk og foreldrar!

Á Degi leikskólans er bæði mikilvægt og verðskuldað að varpa sérstöku ljósi á það mikla og góða starf sem fram fer innan leikskóla Hafnarfjarðar. Í tilefni dagsins heimsótti bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, leikskólann Hlíðarenda sem staðsettur er í Setberginu í Hafnarfirði. Leikskólinn var opnaður á árinu 1998 og er fjögurra deilda. Aðal áhersluþættir í uppeldis- og menntastarfi skólans er umhverfismennt sem endurspeglast meðal annars í öflugri útikennslu, flokkun, ræktun og moltugerð þar sem nemendur og starfsfólk spila stórt hlutverk. Fjölbreytt og hressandi hátíðarhöld hafa staðið yfir í leikskólum Hafnarfjarðar í dag, síðustu vikuna og mun komandi vika líka markast, að einhverju leyti, af hátíðarhöldum enda dagurinn stór.

Í tilefni dagsins heimsótti bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, leikskólann Hlíðarenda.

Í tilefni dagsins heimsótti bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, leikskólann Hlíðarenda.

Hlíðarendi til fyrirmyndar sem Grænfánaskóli

Grænfáninn hefur sex sinnum verið dreginn að húni að Hlíðarenda en til þess að hljóta Grænfánaviðurkenningu þurfa leikskólar að uppfylla fagleg markmið og segir í umsögn úttektaraðila að fyrirkomulag verkefnisins í Hlíðarenda sé afar vel unnið og leikskólinn til fyrirmyndar sem grænfánaskóli “grænfánastarfið skín í gegn, gríðarlega mörg flott verkefni í gangi og falleg hugsun á bak við hvert og eitt”. Þess má einnig geta að þróunarverkefnið “Málrækt í Hlíðarenda” lauk sl. vor með útgáfu á handbók sem gerir ítarlega grein fyrir hvernig unnið er að málrækt í leikskólanum í hinum víðasta skilningi. Í október 2022 tók við starfi leikskólastjóra á Hlíðarenda nýr, metnaðarfullur og ferskur stjórnandi, Bryndís Guðlaugsdóttir, sem býr að mikilli þekkingu og reynslu á heimi leikskólanna. Hún tók við góðu búi og vinnur með starfsfólki sem á það einna helst sameiginlegt að elska starfið sitt.

Tímamótaskref Hafnarfjarðarbæjar þegar farin að skila sér

Í dag á Degi leikskólans eru veitt Orðsporið sem Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda í leikskólum standa fyrir. Þessi hvatningarverðlaun eru veitt þeim sem þykja hafa skarað fram úr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Að þessu sinni er Hafnarfjarðarbæ veitt þessi verðlaun fyrir að stíga framsækið skref að stilla af starfstíma leik og grunnskóla og vera öðrum sveitarfélögum fyrirmynd með því að sýna gott fordæmi. Þetta skref Hafnarfjarðarbæjar er þegar farið að skila sér m.a. á Hlíðarenda þar sem menntaður leikskólakennari sem starfað hefur utan geirans um árabil hefur verið ráðinn sem deildarstjóri.  Helsta ástæða umsóknar voru breyttar starfsaðstæður og vinnutímafyrirkomulag innan leikskólanna. Í ljósi þessa þótti enn meira viðeigandi að bæjarstjóri myndi heimsækja Hlíðarenda.

Um Dag leikskólans

Félag leikskólakennara, menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli standa fyrir deginum en þann 6. febrúar árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök. Deginum er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu leikskólans, gildi hans fyrir þjóðarauð og alla menningu. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um land allt til að vekja sérstaka athygli á leikskólastiginu, mikilvægi þess og gildi fyrir fjölskyldur í landinu og fyrir íslenskt atvinnulíf.

Á vefjum leikskóla Hafnarfjarðar má finna ítarlegar upplýsingar um starfsemi skólanna

Ábendingagátt