Dagur Norðurlanda

Fréttir

Fánum Norðurlandanna var flaggað við bæjarmörkin í tilefni af degi Norðurlanda – degi norræns samstarfs og vinarhugar  – en í ár er því fagnað að Norræna félagið á Íslandi verður 100 ára.

Dagur Norðurlanda – dagur norræns samstarfs og vinarhugar – er í dag 23. mars en árið 2022 er því fagnað að Norræna félagið á Íslandi verður 100 ára. Af því tilefni hefur verið sett upp vefsíða sem fer yfir afmælisárið og heldur utan um alla þá norrænu viðburði sem verða á dagskrá á afmælisárinu. Einnig er hafin söfnun á örsögum, sem eiga rætur sínar að rekja til norrænna samskipta.

Hafnarfjörður á vinabæi um víða veröld og gerðist aðili að norrænu vinabæjarkeðjunni með Frederiksberg í Danmörku, Uppsala í Svíþjóð, Bærum í Noregi og Hämeenlinna í Finnlandi árið 1951. Þá á Hafnarfjörður vinabæina Tvöroyori í Færeyjum og Illulissat í Grænland. Samvinna á milli bæjanna byrjaði eftir heimsstyrjöldina síðari þegar þeim fannst þörf á að styrkja sambandið á milli Norðurlandaþjóðanna.

Fánum Norðurlandanna var flaggað við bæjarmörkin á Norræna daginn í tilefni af því af 100 ára afmæli Norræna félagsins.

Í dag leggja þessir vinabæir aðallega áherslu á menningarleg samskipti, íþrótta- og viðskiptaleg tengsl og hittast reglulega á vinabæjarmótum sem haldin eru annað hvert ár. Mótin samanstanda af uppákomum æskulýðs-, íþrótta og menningarhópa frá bæjunum auk ráðstefna og málþinga um hin ýmsu sameiginlegu málefni norrænu bæjanna. Ungu fólki í Hafnarfirði á aldrinum 16-18 ára með brennandi áhuga á mannréttindamálum gefst kostur á að sækja um þátttöku á vinabæjarmóti í Uppsala en umsóknarfresturinn rennur út á degi Norðurlandanna.

Í tilefni af degi Norðurlandanna 23. mars 2022 og 100 ára afmælis Norræna félagsins (1922-2022) bjóða Norræna félagið og Norræna húsið til norræns gestaboðs í Norræna húsinu 23. mars n.k. kl. 16.30. Léttar veitingar verða í boði.

Ábendingagátt