David Walliams heimsótti Áslandsskóla

Fréttir

Rithöfundurinn og leikarinn David Walliams kom óvænt í dag í heimsókn í Áslandsskóla. Skólinn er nú kominn úr verkfalli og heimsóknin gladdi börnin mjög.

Frægur rithöfundur heimsækir Áslandsskóla

Rithöfundurinn, leikarinn og Íslandsvinurinn David Walliams kom í dag óvænt í heimsókn í Áslandsskóla ásamt forráðamönnum Bókafélagsins sem gefa hann út á Íslandi. Á vef Áslandsskóla má lesa að hann hafi sagt skemmtilegar sögur og lýst því hvar hann sækir innblástur í bækurnar sínar.

David Walliams fór einnig í leik með nokkrum nemendum er hann valdi að handahófi til að fá hugmyndir að nýrri sögu og gaf þeim bók að launum. Óhætt er að segja að hann hafi vakið mikla lukku hjá nemendum sem og starfsfólki enda með eindæmum skemmtilegur og alþýðlegur í allri framkomu.

Áslandsskóli úr verkfalli

Já, ánægjan skein úr andlitum barnanna. Spennan leyndi sér ekki. Dagurinn í dag var sá fyrsti síðan verkfalli í skólanum var aflýst en það skall á 29. október.

Unnur Elfa Guðmundsdóttir er skólastjóri Áslandsskóla. „Dagurinn var dásamlegur í Áslandsskóla. Líf og fjör, allir glaðir, nemendur spenntir og starfsfólkið líka að koma í vinnuna,“ segir Unnur en dagurinn var sá fyrsti eftir verkfall starfsfólks.

„Williams var hér í hátt í klukkutíma. Hann fór einnig á bókasafnið og hitti krakka þar. Svo fengu unglingarnir mynd með honum. Það var frábætt að fá hann.“

Börnin þekkja Williams

Unnur segir unga fólkið þekkja bækurnar hans Williams. „Börnin í Áslandsskóla voru með þeim allra fyrstu sem heyrðu bókina Ömma Glæbon, sem var fyrsta bókin hans sem kom út hér á landi,“ segir hún. „Þá var kennari hérna sem fékk bókina áður en hún kom út og las fyrir nemendur. Hún prufukeyrði því bókina á nemendum,“ segir hún.

David Williams hafi viljað koma í einn grunnskóla á landinu og Áslandsskóli hafi verið valinn. „Hann fékk góðar hugmyndir að næstu bók sinni,“ segir hún.

„Já, líf og fjör og læti. Þetta var góður dagur í Áslandsskóla.“

Ábendingagátt