Deiliskipulag – hönnunarteymi

Fréttir

Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir skipulagshönnuðum vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsvinnu innan bæjarmarkanna.

Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir skipulagshönnuðum vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsvinnu innan bæjarmarkanna. Um ólík landsvæði er að ræða. Horft er til þess að þétta byggð innan bæjarins í þegar byggðum hverfum þar sem landrými er fyrir hendi. Meginmarkmið er að stuðla að betri nýtingu landsvæðis undir íbúðabyggð um leið og byggðamynstur hvers hverfis fyrir sig er haft að leiðarljósi. Enn fremur er um að ræða deiliskipulagsgerð á nýbyggingar- og iðnaðarsvæðum.

Krafa er um að aðilar hafi lokið meistaranámi í arkitektúr, landslagsarkitektúr, skipulagsfræði eða sambærilegu, og hafi reynslu af skipulagsgerð við áþekk verkefni og því sem hér um ræðir. Jafnframt hafi umsækjandi löggildingu skv. 25. og 26. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Ef um hóp er að ræða skal a.m.k. einn úr hópnum uppfylla framangreind skilyrði.

Allir umsækjendur sem uppfylla hæfniskröfur koma til greina og verður dregið um þátttöku þeirra. Þegar fyrir liggur að vinna við deiliskipulag geti hafist hverju sinni verður dregið úr hópi þátttakenda til að tryggja fjölbreytni og jafnan möguleika. Einungis verður dregið meðal þátttakenda sem ekki hafa þegar hlotið verkefni úr fyrri útdrætti. 

Umsækjendur skulu senda upplýsingar og gögn sem sýna fram á að hæfniskröfum sé mætt til Þormóðs Sveinssonar, skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar thormodur@hafnarfjordur.is í síðasta lagi 27. september 2017. 

Reiknað er með að niðurstaða um þátttakendur liggi fyrir viku síðar.

Ábendingagátt