Dorgað í gríð og erg í Hafnarfirði

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Á fimmta hundrað 6-12 ára hafnfirsk börn og starfsmenn tóku þátt í árlegri dorgveiðikeppni á Flensborgarhöfn í dag. Tvær aflaklær og veiðimaður stærsta fisksins fengu bikar og veiðistöng að launum. Keppnin er löngu orðin hefð hér í Hafnarfirði.

Dorgað á Flensborgarhöfn

Á fimmta hundrað 6-12 ára hafnfirsk börn og starfsmenn tóku þátt í árlegri dorgveiðikeppni á Flensborgarhöfn í dag. Um 40 fiskar veiddust í heildina. Sumum var sleppt strax en skráðir.

Miklu meiri veiði var í ár en síðustu ár enda fullkomið veiðiveður, skýjað. Keppnin hefur verið haldin í yfir 30 ár við höfnina í Hafnarfirði.

Þrír fengu bikar og veiðistöng

Stærsti fiskurinn sem veiddist í dag var 351 g ufsi. Óliver Leó veiddi fiskinn og fékk veiðistöng og bikar fyrir. Það fengu einnig Reynir Máni og Nikulás Högni sem voru afklær Flensborgarhafnardorgveiðikeppninnar í ár. Þeir veiddu 6 fiska hvor.

Ufsi, marhnútur og lúða voru meðal þeirra tegunda sem veiddust í ár. Ekki voru veitt verðlaun fyrir furðufisk, því enginn einn stóð upp úr sem slíkur í ár.

Já, þetta var yndislegur dagur. Börnin skríktu af kæti og við Hafnfirðingar þekkjum hvað þetta er gaman. Hefðin er orðin það gömul að ætla má að nú sé önnur kynslóð veiðimanna á ferð. Áfram Hafnarfjörður.

Nikulás og Óliver.

 

Reynir með bikarinn sinn.

Ábendingagátt