Dreifing nýrra sorpíláta gengur áætlunum samkvæmt

Fréttir

Íbúar eru hvattir til að temja sér rétta flokkun strax við endurmerkingu og móttöku á nýju sorpíláti. Röng flokkun mun koma í veg fyrir tæmingu. Innleiðing nýs sorpflokkunarkerfis í Hafnarfirði hefur gengið vel og er samkvæmt áætlun. Dreifingu nýrra sorpíláta er nú lokið á Hvaleyrarholti, Vesturbæ, Miðbæ, Áslandi, Suðurbæ suður og Norðurbæ. Í vikunni hófst dreifing í Setbergi og Suðurbæ norður.

Nýtt sorpílát á leið heim til íbúa í Setbergi og norðurhluta Suðurbæjar

Innleiðing nýs sorpflokkunarkerfis í Hafnarfirði hefur gengið vel og er samkvæmt áætlun. Dreifingu nýrra sorpíláta er nú lokið á Hvaleyrarholti, Vesturbæ, Miðbæ, Áslandi, Suðurbæ suður og Norðurbæ. Í vikunni hófst dreifing í Setbergi og Suðurbæ norður. Í næstu viku, 3. – 7. júlí, hefst dreifing í Hraunum og ráðgert er að dreifingu nýrra íláta í Hafnarfirði ljúki á Völlunum 10. – 14. júlí.

Fjöldi sorpíláta við hvert heimili

Við hvert sérbýli (einbýli, tvíbýli og þríbýli) er bætt við tvískiptu íláti fyrir matarleifar og blandaðan úrgang fyrir hvert fasteignanúmer. Við fjölbýli er bætt við brúnu íláti fyrir matarleifar en fjöldi íláta er sérsniðinn að fjölda fasteignanúmera hvers fjölbýlis. Eldri ílát eru endurmerkt fyrir réttan flokk og heimili á fasteignanúmeri fá afhent plastkörfu, bréfpokabúnt, festingu og bækling um fjórflokkun heimilissorps. Sérbýli verða að dreifingu lokinni með 240L tvískipt ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang, 240L ílát fyrir plastumbúðir og 240L ílát fyrir pappír. Fjölbýli verða að innleiðingu lokinni með 240L ílát fyrir matarleifar, 240L/660L ílát fyrir blandaðan úrgang, 240L/660L ílát fyrir plastumbúðir og 240L/660L ílát fyrir pappír. Fjöldi íláta stýrist af fjölda fasteignanúmera í hverri byggingu.

Ef íbúar þeirra hverfa sem þegar hafa fengið ný sorpílát telja að eitthvað hafi misfarist í dreifingunni þá eru þeir hvattir til að senda póst á netfangið: sorpflokkun@hafnarfjordur.is og láta vita. Starfsfólk bæjarins reynir að bregðast við hratt og örugglega.

Fimmtán vaskir starfsmenn og Verkher

Fimmtán vaskir starfsmenn innleiðingar nýs sorpflokkunarkerfis í Hafnarfirði hafa unnið hörðum höndum að því að setja saman og merkja brúntunnur fyrir fjölbýli og tvískiptar tunnur fyrir sérbýli ásamt því að dreifa þeim í hverfin og endurmerkja eldri ílát. Verkherinn, atvinnuúrræði fyrir ungmenni með fatlanir, hefur lagt verkefninu lið með því að setja plastkörfur, bréfpokabúnt, festingar og bækling í poka og einnig að setja límmiða á nýju ílátin.

Íbúar almennt ánægðir með nýtt fyrirkomulag

Ánægjulegt er að segja frá því að bæjarbúar hafa almennt tekið vel í nýja flokkun sorps og ný flokkunarílát. Þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar hefur verið boðið og búið að aðstoða bæjarbúa og svara spurningum og ábendingum. Helstu áskoranir innleiðingarinnar hafa verið veðrið sem hefur verið ansi vætusamt það sem af er sumri. Mistök fyrstu vikna innleiðingar hafa verið lærdómsrík og nýtt til að lágmarka áframhaldandi mistök þó svo að þau geti alltaf átt sér stað. Verkefnastjóri heldur utan um frávik og þau almennt leyst innan fárra daga.

Temjum okkur strax rétta flokkun – röng flokkun hindrar tæmingu

Samhliða dreifingu á nýjum sorpílátum í hverju hverfi er sorp losað, eldri ílát endurmerkt og aðlögunartími gefinn fram að næstu losun. Þar með er formleg innleiðing á flokkun hafin. Sérstök athygli er vakin á því að ef ekki er rétt flokkað í sorpílát í annarri losnun eftir að ný ílát og endurmerking hefur átt sér stað er sett tilkynning um að ekki hafi verið losað. Íbúar þurfa þá sjálfir að endurflokka og tunnan losuð í næstu losun. Íbúar eru hvattir til að hefja rétta flokkun um leið og ný ílát eru afhent.

Almennar upplýsingar um samræmt fyrirkomulag

Sértækar upplýsingar fyrir Hafnarfjörð

Ábendingagátt