Ebba Katrín: Jólin best heima í Hafnarfirði
„Við systkinin erum öll orðin svo gott sem fullorðin og tvö komin á fertugsaldur, en öll viljum við hvergi annars staðar vera á aðfangadag en hjá mömmu og pabba í Lækjarberginu,“ segir Ebba Katrín Finnsdóttir, bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar.
Bæjarlistarmaðurinn í jólabænum
„Við systkinin erum öll orðin svo gott sem fullorðin og tvö komin á fertugsaldur, en öll viljum við hvergi annars staðar vera á aðfangadag en hjá mömmu og pabba í Lækjarberginu,“ segir Ebba Katrín Finnsdóttir, bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar.
Leikkonan Ebba Katrín hefur vakið verðskuldaða athygli síðustu misseri á sviði og í sjónvarpi. Annasamt ár er að baki og margt eftirtektarvert. Þá sérstaklega sýningin Orð gegn orði. Hún ólst upp í firðinum fagra.
Sameinast í Lækjarberginu
„Foreldrar mínir hafa stungið upp á því við höldum okkar eigin jól. Það hefur ekki komið til greina og þau tekið í sátt að jólin séu áfram heima hjá þeim,“ segir Ebba Katrín sem togast ekki á við unnustann og leikarann Odd Júlíusson um aðfangadaginn. Þau borða í sitthvoru lagi.
„Hann kemur svo til okkar í Lækjarbergið og við hittum foreldra hans á jóladag,“ segir hún þar sem hún röltir í vinnuna í Þjóðleikhúsinu snemma dags með Odd sér við hlið. „Hann er grjótharður Vesturbæingur,“ segir hún og hlær. „Ólst upp í 107. Foreldrar hans búa ennþá þar. Þetta eru stálin stinn. Ég ætla að skutla framtíðarbarninu í Hafnarfjörð, beint í FH. Ekki séns það fari í KR,“ segir hún og hlær.
Hitta stórfjölskylduna á aðfangadag
Alltaf sami matur, alltaf eins í Lækjarberginu? „Svipað, svipaður matur, en lykillinn er að vera öll saman,“ segir hún og deilir með okkur hjartnæmri fjölskylduhefð.
„Stórfjölskyldan í föðurætt hittist í kirkjugarðinum um fjögurleytið. Þar skvettum við smá púrtvíni á leiði ömmu Siggu, setjum vindil á leiðið hjá afa Árna og drekkum kakó á meðan kalkúnninn eða hamborgarhryggurinn mallar í ofninum. Allir með krakkana. Þetta er skemmtileg hefð,“ segir hún.
Ebba Katrín segir Hafnarfjörð ómissandi í aðdraganda jólanna. „Bærinn er svo fallega skreyttur jólaljósum. Ég kíki við einu til tvisvar í viku. Tjilla hjá mömmu og pabba. Svo heimsæki ég Jólaþorpið.“ Minna verður um stressið þessi jólin en þau flest, því nú er hún ekki í verki frumsýndu á öðrum degi jóla. Hins vegar upplifir hún jólin margoft fram að þeim á ólíku tímaskeiði í leikritinu Jólaboðið í Þjóðleikhúsinu. Þar er viðburðarík jólasaga íslenskrar fjölskyldu í 100 ár sögð. „Já, þetta verða ljúf jól,“ segir Ebba Katrín.
Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa: