Einar Bárðarson ráðinn samskiptastjóri

Fréttir

Einar Bárðarson hefur verið ráðinn samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar en um tímabundna ráðningu er að ræða. Þeir Andri Ómarsson, verkefnastjóri viðburða, munu starfa náið saman að innri og ytri samskiptum, innri miðlun upplýsinga, auglýsingum, kynningarmálum og viðburðum.

Einar Bárðarson hefur verið ráðinn samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar en um tímabundna ráðningu er að ræða frá 1. ágúst n.k. til 31. ágúst 2018. Einar er fyrrum rekstrarstjóri Reykjavík Excursions og forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Síðustu misseri hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi í ferðaþjónustu.

Einar mun í starfi sínu sem samskiptastjóri sveitarfélagsins annast samskipti og samstarf við fjölmiðla, hafa yfirumsjón með auglýsingum og kynningarefni, sinna stefnumótun og samhæfingu í upplýsinga- og ferðamálum þar sem sérþekking hans í ferðaþjónustu mun vonandi nýtast vel ásamt því að vera bæjarstjóra og öðrum starfsmönnum til ráðgjafar um samskipti og upplýsingagjöf. Einar mun tímabundið taka við verkefnum Árdísar Ármannsdóttur sem er á leið í fæðingarorlof. Þær breytingar hafa þegar verið gerðar að Andri Ómarsson, verkefnastjóri á stjórnsýslusviði, hefur tekið við viðburðatengdum verkefnum og munu þeir Einar starfa náið saman að innri og ytri samskiptum, innri miðlun upplýsinga, auglýsingum, kynningarmálum og viðburðum. Einar mun hefja störf í byrjun ágúst.

EinarBardarson

Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar

Mynd1AndriOmarssonAndri Ómarsson, verkefnastjóri viðburða hjá Hafnarfjarðarbæ
 

Ábendingagátt