Orkubolti með einskæran áhuga á uppeldismálum

Fréttir

Í þessum fyrsta þætti Vitans ársins 2020 er viðmælandinn Hulda Björk Finnsdóttir, verkefnastjóri Brúarinnar. Það er vel viðeigandi að hefja nýtt ár með umfjöllun um áhugavert nýsköpunar- og þróunarverkefni sem vakið hefur verðskuldaða athygli hér heima og erlendis.

Í Vitanum, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, er fjölbreytt þjónusta sveitarfélagsins tekin fyrir með góðu spjalli við áhugaverða einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að vinna af áhuga og heilindum í þágu sveitarfélagsins. Í þessum fyrsta þætti ársins 2020 er viðmælandi Vitans Hulda Björk Finnsdóttir, verkefnastjóri Brúarinnar. Það er vel viðeigandi að hefja nýtt ár með umfjöllun um áhugavert nýsköpunar- og þróunarverkefni sem vakið hefur verðskuldaða athygli hér heima og erlendis. Verkefni sem er til þess fallið að brúa bil á milli ólíkra þjónustueininga og ólíkra kerfa bæði innan sveitarfélagsins og utan þess með það fyrir augum að samþætta veitta þjónustu.

Orkubolti sem hefur komið víða við

Hulda Björk er orkurík og jákvæð gömul fimleikastjarna úr Garðabænum sem lauk námi sínu í félagsráðgjöf í Noregi þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið og hlaut m.a. sína fyrstu starfsreynslu á fósturgreiningardeild á Sjúkrahúsinu í Þrándheimi. Hún er yngst fjögurra systkina og skilgreinir sig sem örverpi fjölskyldunnar. Uppeldismál hafa alltaf átt hug hennar allan og var hún snemma að árum farin að hafa sterkar skoðanir á uppeldi barna. Sóttist því mikið eftir því að vinna á leikskólum, æfði og þjálfaði fimleika og fannst öll þessi vinna með börnum og fjölskyldufræði í heild sinni afar áhugaverð. Þessi áhugi hefur endurspeglast í námi hennar og störfum og starfar hún í dag sem verkefnastjóri Brúarinnar hjá Hafnarfjarðarbæ.

Hlusta á þáttinn

Hafnarfjarðarbær hefur frá og með haustinu 2018 starfrækt BRÚNA sem er nýtt verklag í þjónustu við börn í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og hefur það stóra markmið að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Áhugavert verkefni sem vaknaði sem hugmynd 2016 og ákveðið var að ráðast í framkvæmd og innleiðingu á haustið 2018. Nýlega hlaut Brúin tilnefningu til evrópskra verðlauna og hélt hópur héðan til Brussel til að taka þátt í verðlaunahátíð valinna verkefna.

Viðtöl við áhugaverða einstaklinga sem starf í þágu sveitarfélagsins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict.

Ábendingagátt