Einstök samheldni og gestrisni íbúa

Fréttir

Austurgata var á árum áður aðal verslunargata Hafnarfjarðar. Gatan er dæmigerð fyrir Hafnarfjörð þar sem byggðin, hraunið og fólkið mynda þétta heild. Við götuna standa 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf og lögð hefur verið áhersla á að viðhalda götumynd frá upphafi 20. aldar. Samheldni íbúa við Austurgötu er mikil og í dag er notuð nútímaleiðin íbúasíða á Facebook til að halda hópinn og þegar eitthvað stendur til.

 

Fyrrum aðal verslunargata bæjarins

Austurgata var á árum áður aðal verslunargata Hafnarfjarðar. Gatan er dæmigerð fyrir Hafnarfjörð þar sem byggðin, hraunið og fólkið mynda þétta heild. Við götuna standa 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf og lögð hefur verið áhersla á að viðhalda götumynd frá upphafi 20. aldar. Samheldni íbúa við Austurgötu er mikil og í dag er notuð nútímaleiðin íbúasíða á Facebook til að halda hópinn og þegar eitthvað stendur til.

Fyrirtæki og stofnun eru við götuna, s.s. Matarbúðin Nándin með umhverfisvænum áherslum, Hljóma með tónlistarkennslu og músíkmeðferðum og elsta kirkja Hafnarfjarðar, Fríkirkjan, stendur á kletti yfir götunni. Þar er einnig gamla símstöðin sem í dag er heimili og svo sögulega þekktasta jólahús bæjarins. Með tilkomu matarbúðarinnar við enda götunnar við lækinn segja íbúar að smám saman sé að endurvakna menningin og stemningin sem var áður fyrr. Margir leggi leið sína frá læknum og á svæðið að Hljómu á laugardögum.

Samheldni og hugmyndaríki íbúa við Austurgötu hefur m.a. leitt af sér Austurgötuhátíðina, sem er orðin órjúfanlegur hluti hátíðarhaldanna 17. júní, með götumarkaðsstemningu og sölu á list- og föndurmunum, veitingasölu og ómandi tónlist. Einhverjir opna garðana sína þennan dag eða bjóða gestum að setjast fyrir framan húsin sín. Aðrir fara enn lengra í gestristninni á hinni árlegu HEIMA-hátíð, því þá er Austurgatan í stóru hlutverki og fjölmargir íbúar bjóða gestum og gangandi heim í stofu til að upplifa söng og tóna frá þekktu tónlistarfólki við óvanalega heimilislegar aðstæður.

Jólablað Hafnarfjarðar 2021

Þessi umfjöllun er hluti af efni í jólablaði Hafnarfjarðar 2021. Jólablaðið hefur þann eina og sanna tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, fyrir gestum og gangandi og varpa ljósi á þann hlýleika og fjölbreytileika sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í jólabænum Hafnarfirði. Í jólablaðinu 2021 er meðal annars að finna umfjöllun um öðruvísi skemmtun, hefðir í hreyfingu, einstaka samheldni íbúa, hús tækifæranna í Hellisgerði, fjölskyldurekin fyrirtæki, norðurljós, töfrum prýdd kaffihús, girnilegar uppskriftir, mikilvægi þess að njóta og slaka, Jólahjartað og hjartasvellið sem opnar í desember, samstarfsverkefni samfélaginu til heilla og síðasta en ekki síst Jólaþorpið sem opnaði fyrstu helgina í aðventu.

Jólablað Hafnarfjarðar 2021

 

 

Ábendingagátt