Endurskoðun á rekstrarsamningum við stærri íþróttafélög   

Fréttir

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 20. febrúar síðastliðinn breytingar á ákvæðum og ný ákvæði í þjónustu- og rekstrarsamninga við íþróttafélög í sveitarfélaginu. Skýrari kröfur verða gerðar til þeirra íþróttafélaga sem njóta hæstu framlaganna frá sveitarfélaginu með áherslu á gagnsæi og ábyrga meðferð fjármuna félaganna. 

Áhersla á gagnsæi og ábyrga meðferð fjármuna

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 20. febrúar síðastliðinn breytingar á ákvæðum og ný ákvæði í þjónustu- og rekstrarsamninga við íþróttafélög í sveitarfélaginu. Skýrari kröfur verða gerðar til þeirra íþróttafélaga sem njóta hæstu framlaganna frá sveitarfélaginu með áherslu á gagnsæi og ábyrga meðferð fjármuna félaganna. Ný ákvæði ná annars vegar til reglna og eftirlits um fjárreiður og meðferð fjármuna og hins vegar til tilnefninga áheyrnarfulltrúa bæjarins í aðalstjórnir félaganna.    

Ná til félaga sem fá yfir 35 millj. króna framlög á ársgrundvelli 

Flestir gildandi samningar hafa verið nær óbreyttir frá árinu 2016. Vinna er þegar hafin við endurskoðun á þessum þjónustu- og rekstrarsamningum þar sem uppfærð verða bæði einstök ákvæði auk þess sem sett verða inn ný ákvæði í samræmi við breyttar kröfur. Ákvæðin verða sett inn í þjónustu- og rekstrarsamninga þeirra íþróttafélaga sem fá yfir kr. 35 millj. króna í framlög frá Hafnarfjarðarbæ á ársgrundvelli. 

Ný ákvæði í þjónustu- og rekstrarsamningum 

  • Íþróttafélag X skal tryggja að fjárreiður félagsins séu í samræmi við gildandi reglugerð ÍSÍ um fjárreiður á hverjum tíma. Jafnframt skal aðalstjórn X setja reglur um fjárreiður og meðferð fjármuna sem gerðar skulu opinberar á vef félagsins. Í slíkum reglum skal meðal annars kveðið á um hvers konar fjárskuldbindingar deilda skuli leggja til samþykktar hjá aðalstjórn félagsins. Einnig að aðalstjórn félagsins hafi eftirlit með fjárhag deilda og annarra starfseininga félagsins.  
  • Hafnarfjarðarbær skal jafnframt vera heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í aðalstjórn X. Áheyrnarfulltrúinn skal hafa rétt til setu á fundum aðalstjórnar og hafa þar málfrelsi. Nánar um stöðu áheyrnarfulltrúa og samskipti við aðalstjórn er í samræmi við verklagsreglur sem Hafnarfjarðarbær setur. 

Markmiðið með nýjum og breyttum ákvæðum er skýrt. Greiður aðgangur að upplýsingum, aukið gegnsæi og ábyrg meðferð á fjármunum íþróttafélaganna í bænum. 

Hlekkur á fundargerð bæjarráðs 20. febrúar – mál nr. 6  

Ábendingagátt