Endurskoðun upplýsingastefnu

Fréttir

Við leitum eftir athugasemdum frá ykkur.  Starfshópur hefur unnið að endurskoðun á upplýsingastefnu Hafnarfjarðarbæjar. Drög að stefnu liggja nú fyrir og eru tilbúin til rýni og athugasemda allra hagsmunaaðila. Athugasemdir þurfa að berast í síðasta lagi 27. nóvember.

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 8. september
s.l. að hefja vinnu við endurskoðun á upplýsingastefnu Hafnarfjarðarbæjar.  Starfshópur var skipaður til að vinna að
endurskoðuninni og sitja í starfshópi fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga
fulltrúa í bæjarstjórn ásamt samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar. Drög að
endurskoðaðri upplýsingarstefnu liggja nú fyrir og eru tilbúin til rýni og
athugasemda frá öllum hagsmunaaðilum sveitarfélagsins.

Drög að endurskoðaðri upplýsingastefnu Hafnarfjarðarbæjar má sjá hér

Athugasemdir og ábendingar frá ykkur

Við leitum eftir athugasemdum og ábendingum frá ykkur. Ykkar sýn, mat og þátttaka skiptir sveitarfélagið miklu máli. Vinsamlega sendið allar athugasemdir á netfangið: ardis@hafnarfjordur.is í síðasta lagi sunnudaginn 27. nóvember.

Vönduð meðferð og miðlun eru grunnurinn

Upplýsingastefna Hafnarfjarðarbæjar tekur á lykilþáttum er varða
innihald, meðferð og flæði upplýsinga milli starfsmanna og til allra
skilgreindra hagsmunaaðila sveitarfélagsins. Vönduð meðferð og miðlun eru
grunnur að stefnu Hafnarfjarðarbæjar enda um að ræða mikilvæga þætti í
starfsemi opinberra aðila, þætti sem eru til þess fallnir að skapa traust og
virðingu. Réttar upplýsingar á réttum stað og réttum tíma eru undirstaða
vandaðrar ákvarðanatöku og grunnur að rekstrarlegu hagræði og virkri
lýðræðislegri þátttöku. Slík opinber upplýsingaveita virðir á sama tíma mörk og
verndun persónulegra upplýsinga lögum samkvæmt.

Fyrirfram þakkir fyrir góð viðbrögð! 

Mynd sem fylgir frétt var fengin að láni hér

Ábendingagátt