Endursmíði Krýsuvíkurkirkju fagnað

Fréttir

Í vikunni var verklokum og endursmíði Krýsuvíkurkirkju fagnað við hátíðlega athöfn í Tækniskólanum. Kirkjan verður flutt á grunn sinn í Krýsuvík síðar í sumar.

Í vikunni var verklokum og endursmíði Krýsuvíkurkirkju
fagnað við hátíðlega athöfn í Tækniskólanum að Flatahrauni í Hafnarfirði en auk
skólans hafa Vinafélag Krýsuvíkurkirkju og Þjóðminjasafn staðið að verkinu. Kirkjan
brann árið 2010 og var þá í eigu Þjóðminjasafnsins sem fékk kirkjuna ásamt
kirkjugarði, öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum og landspildu umhverfis
kirkjuna að gjöf frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1964. Kirkjan verður flutt
á grunn sinn í Krýsuvík síðar í sumar.

Ómetanlegt starf við endursmíði og mikilvæg miðlun fagkunnáttu

Vinafélag Krýsuvíkurkirkju var stofnað strax eftir brunann
og gaf Þjóðminjasafnið félaginu tryggingabæturnar til að kosta efni í
endurbygginguna. Samið var við Tækniskólann um að nemar þar og kennarar gæfu
vinnuframlag til endurbyggingar kirkjunnar og hefur verkefnið verið nýtt til að veita
innsýn í og þjálfun við að beita þeim vinnuaðferðum sem tíðkuðust við smíði
timburhúsa um miðja 19. öld sem mun nýtast þeim í viðgerðum gamalla bygginga. Viðstaddir
athöfnina voru auk skólameistara, bæjarstjóra, vinafélagsins og annarra
velunnara kirkjunnar þeir kennarar sem unnið hafa frábært og ómetanlegt starf
við endursmíðina. Það eru þeir Björn Ottó Halldórsson, Bjarni Þorvaldsson, Guðmundur
Helgi Helgason, Hrafnkell Marinósson og Engilbert Valgarðsson sem hafa miðlað
af kunnáttu sinni til fjölda nemenda við framkvæmd verkefnisins. 

Sjá tilkynningu á vef Tækniskólans 

Ábendingagátt