Engidalsskóli og Hlíðarendi á toppnum í Lífshlaupinu

Fréttir

Starfsfólk leikskólans Hlíðarenda í Setbergi fékk gullplatta fyrir flesta daga á hreyfingu í Lífshlaupinu og Engidalsskóli stóð sig best hafnfirskra gunnskóla. Frábær árangur sem fagnað var í gær.

Íþróttaálfurinn hristi upp í Engidalsskóla!

Fagnað var af lífi og sál þegar tilkynnt var að Engidalsskóli hafi staðið sig best hafnfirska grunnskóla í Lífshlaupinu. Alls tóku 220 nemendur 1.-7. bekkjar skólans þátt. Eftirtektarvert er að allir árgangar skólans voru virkir og náði skólinn 5. sæti á landsvísu í flokki 90-299 nemenda.

Íþróttaálfurinn kíkti í heimsókn og hvatti nemendur áfram. Þeir hoppuðu með honum á sal í tilefni árangursins sem er eftirtektarverður því þetta er í fyrsta sinn sem skólinn tekur þátt.

Kennarar skráðu niður hvað hver nemandi hreyfði sig um tveggja vikna skeið. Margrét Halldórsdóttir skólastjóri og kennarar fengu blómvendi úr hendi bæjarstjóra. Nemendurnir fengu sjálfan Íþróttaálfinn. Þeir hreyfðu sig samtals í 1.153 daga eða 123.095 mínútur á þessu tveggja vikna tímabili í Lífshlaupinu.

Algjörlega frábær árangur. Til hamingju öll.

Bryndís Ævarsdóttir, Kveldúlfur Hasan, Sandra Anulyté, öll frá Hlíðarenda, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Gullplattan fékk starfsfólkið fyrir að hreyfa sig flesta daga í Lífshlaupinu.

 

Starfsfólk Hlíðarenda fékk gullplatta

Já, þetta var ekki eini árangurinn sem stóð upp úr Lífshlaupinu að þessu sinni. Starfsfólk Hlíðarenda, leikskólans í Setbergi, bar sigur úr býtum á landsvísu meðal vinnustaða að sinni stærðargráðu. Starfsmenn fengu gullplatta fyrir að hreyfa sig flesta daga um þriggja vikna skeið.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri færði þeim einnig blóm. Frábær árangur stýrt af íþróttakennara skólans, Söndru Anulyté. Metnaðurinn var mikill og hver hreyfing skráð. Hlaup, útreiðartúrar, skíðaferð og langar göngur mynduðu árangurinn. Miklar fyrirmyndir. Starfsmenn juku hreyfingu sína á tímabilinu, þeir fara að jafnaði þrisvar í viku en núna í Lífshlaupinu á hverjum degi. Stemning, sögðu þau.

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar sem tóku þátt í Lífshlaupinu 2024 hreyfði sig samtal í 227.805 mínútur eða 2.633 daga 💪. Alls tóku 206 starfsmenn þátt í Lífshlaupinu í 17 liðum.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er.

Klöppum fyrir krökkunum! Líka fyrir öllum þeim sem héldu utan um skráninguna.  Klöppum sérstaklega fyrir frábærum árangri starfsfólks Hlíðarenda. Þetta er svo vel gert!

Lífshlaupið 2024 var ræst í sautjánda sinn þann 7. febrúar síðast liðinn og stóð í tvær vikur í skólakeppninni, en þrjár vikur í öðrum flokkum.

Innilega til hamingju öll með frábæran árangur!

 

Vinnustaðir með 70-149 starfsmenn:

  1. Hvaleyrarskóli 🥇
  2. Ráðhús Hafnarfjarðar (4 lið) 🥈
  3. Öldutúnsskóli 🥉
  4. Hraunvallaskóli
  5. Víðistaðaskóli

Vinnustaðir með 30-69 starfsmenn:

  1. Heilsuleikskólinn Hamravellir 🥇
  2. Engidalsskóli 🥈
  3. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar 🥉

Vinnustaðir með 10-29 starfsmenn:

  1. Leikskólinn Hlíðarendi 🥇🏆 👏 Hlutfallslega flestir dagar í hreyfingu
  2. Leikskólinn Tjarnarás (2 lið) 🥈
  3. Leikskólinn Smáralundur 🥉
  4. Hæfingastöðin Bæjarhrauni
  5. Heilsuleikskólinn Álfasteinn

TAKK FYRIR FRÁBÆRA KEPPNI!

Ábendingagátt