Átt þú grenitré sem gæti orðið gleðigjafi?

Fréttir

Hafnarfjarðarbær óskar eftir grenitrjám í görðum sem hafa e.t.v. lokið sínu hlutverki hjá garðeigendum. Ert þú með tré í þínum garði sem gæti verið gleðigjafi á aðventunni?

Hafnarfjarðarbær óskar eftir grenitrjám í görðum sem hafa e.t.v. lokið sínu hlutverki hjá garðeigendum. Við erum að detta í jólagírinn.

Ertu með tré í þínum garði sem gæti verið gleðigjafi á aðventunni?

Grenitré geta orðið mjög há, breið og taka oft ansi mikið pláss í heimilisgörðunum. Íbúar eiga oft í vandræðum með þessi tré og kostnaðarsamt fyrir garðeigendur að fjarlægja. Því var ákveðið fyrir einhverjum árum síðan að slá tvær flugur í einu höggi með því að bærinn bjóði upp á hagkvæm skipti fyrir báða aðila þar sem ávinningurinn er öllum í hag. Bærinn sendir mannskap og tæki til að fjarlægja tré íbúum að kostnaðarlausu og nýtist tré sem gleðigjafi yfir hátíðina. Íbúinn fær aukið rými í garðinum og að aðventu lokinni er tréð nýtt í trjákurl í bæjarlandinu. Geta má þess að þetta er aðeins hluti af jóla- og áramótskreytingum sem Hafnarfjarðarbær setur upp ár hvert, einnig er sett lýsing í þónokkur lauftré víðs vegar í bænum. Síðan eru settar upp svokallað ljósalengjur og ljósahorn á ljósastaura ásamt fallegum skreytingum í Jólaþorpið í Hafnarfirði en heimsókn í það er orðin ómissandi hluti af aðventunni ár hvert hjá stórum hópi fólks. 

Uppfyllir þitt tré meðfylgjandi skilyrði?

Skilyrðin eru að tré hafi náð a.m.k. fimm metra hæð, að vaxtarlagið sé gott þ.e.a.s. að tréð sé vel greint allan hringinn og það sé auðvelt að komast að því til að fella það niður við jörðu. Trén verða felld og sett upp á fyrirfram ákveðna staði á tímabilinu 7. nóvember til 23. nóvember. 

Hafðu samband

Allir áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að setja sig í samband við garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar sem kemur á staðinn og metur ástand trésins út frá gefnum skilyrðum. Garðyrkjustjóri Hafnarfjarðarbæjar er Ingibjörg Sigurðardóttir. Hægt er að hafa samband við Ingibjörgu í síma 585-5670 og 585-5674 eða senda tölvupóst á: ingibjorgs@hafnarfjordur.is

Ábendingagátt