Ertu á aldrinum 16-18 ára með brennandi áhuga á mannréttindamálum?

Fréttir

Ungmennahúsið Hamarinn leitar að 8 ungmennum á aldrinum 16-18 ára til þátttöku á vinabæjarmóti í Uppsala í Svíþjóð, 2.-7. maí næstkomandi.

Viltu koma með okkur til Uppsala í Svíþjóð og ræða mannréttindamál og þátttöku ungs fólks í ákvörðunartöku fyrir sitt nærsamfélag?

Ungmennahúsið Hamarinn leitar að 8 ungmennum á aldrinum 16-18 ára, sem hafa brennandi áhuga á mannréttindamálum og hvernig ungt fólk getur komið betur að því að hafa áhrif á sitt nærsamfélag, til að koma með okkur á vinabæjarmót í Uppsala í Svíþjóð, 2. – 7. maí næstkomandi.

Enginn ferðakostnaður fyrir þátttakendur, greitt verður fyrir flug, gistingu og uppihald.

Hér er gullið tækifæri í að þjálfa sig í að koma hugsjónum sínum í orð, æfa sig í að koma þeim á framfæri og síðast en ekki síst að kynnast öðru ungu fólki, frá öllum Norðurlöndunum, með sama markmið.

Eina sem þú þarft að gera er að sækja formlega um með 300 orða greinargerð um af hverju þú telur mikilvægt að rödd ungs fólks heyrist og að tekið sé mark á reynsluheimi ungs fólks þegar verið er að taka stórar ákvarðanir fyrir samfélagið. Skila má greinargerðinni skriflega, á myndbandi, í hlaðvarpi eða hvaða sniði sem hentar þér á íslensku eða ensku.

Skila skal umsókninni fyrir 23. mars, sem er dagur Norðurlandanna, á netfangið mgm@hafnarfjordur.is.

Hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar hjá Möggu Gauju í síma 664 5551 og mæla sér mót við hana í Hamrinum.

Vinabæi Hafnarfjarðar má finna um víða veröld

Hafnarfjarðarbær á tíu vinabæi um víða veröld. Vinabæirnir í norrænu vinabæjarkeðjunni hittast reglulega á vinabæjarmótum sem haldin eru annað hvert ár. Mótin samanstanda af uppákomum æskulýðs-, íþrótta og menningarhópa frá bæjunum auk ráðstefna og málþinga um hin ýmsu sameiginlegu málefni norrænu bæjanna. Nánari upplýsingar um vinabæi Hafnarfjarðar má finna hér.

Ábendingagátt